145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:26]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er örlítið óljóst og við skulum gera reikning fyrir því að það þurfi ekki endilega að benda til þess að stórar breytingar standi til. Okkur í utanríkismálanefnd hefur alla vega ekki verið tilkynnt það og það getur vel verið að ekki sé ætlunin að gera stórar breytingar. Það er þó vissulega, miðað við orðalagið í frumvarpinu, möguleiki á breytingum sem eru að mínu viti ekki af hinu góða. Það segir sitt að stofnunin heitir Þróunarsamvinnustofnun og að við tölum um þróunarsamvinnu. Það er ekki svo langt síðan, allavega man þessi þingmaður hér vel eftir því, þegar alltaf var rætt um þessi mál sem þróunaraðstoð og þá út frá þeirri hugsun að ríka þjóðin sem allt veit fer og aðstoðar hinar sem eru fátækar og vita minna. Það er úrelt hugsun, hugsunin er alltaf að þróast meira og meira út í samvinnu og út í hugmyndafræðina „ekkert um þá án þeirra“ eða „ekkert um okkur án okkar“, þ.e. að það séu heimamenn sem búa í, stjórna og þekkja til í samfélögunum sem verið er að aðstoða eða vinna með sem meta þörfina og vinna jafnvel verkin með sérstökum fagaðilum. Það segir sig sjálft að til að vinna við þessar aðstæður, sérstaklega í löndum og kúltúrum sem eru allt öðruvísi en við þekkjum, þarf mikla sérþekkingu og reynslu. Það er mjög hættulegt, segi ég, sérstaklega fyrir jafn lítið land og okkur, jafn lítið þjóðfélag þar sem við (Forseti hringir.) eigum ekki endalausa sérfræðinga í öllum málum, ef það er hætta á spekileka eða því að réttur maður sé á röngum stað.