145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég svaraði spurningum fyrr í kvöld og ekkert nýtt hefur bæst við nema þessar tvær spurningar núna frá hv. þingmanni. Ég er reyndar búinn, að minnsta kosti einu sinni ef ekki tvisvar, að fara yfir þær úttektir sem eru gerðar. Ég nefndi meðal annars í kvöld að verið er að vinna að úttekt á Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Ráðuneytið sjálft og verkefni sem við erum aðilar að á alþjóða vettvangi sæta að sjálfsögðu úttektum og slíkt. Þingmaðurinn og aðrir þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að eftirlit og úttektir og ferlar verði á annan eða síðri veg en er í dag. Árangur er mældur eftir því sem það á við og þegar þörf er á. Ráðuneytið býr yfir langri reynslu af þróunarsamvinnu líkt og ÞSSÍ.

Varðandi kynningarmál þá geri ég að sjálfsögðu ráð fyrir því, annað hefur ekki verið rætt, að haldið verði áfram að kynna þá starfsemi sem ráðuneytið er að með, hvort sem það er þróunarsamvinna eða annað. Hvort hlutirnir verða nákvæmlega eins og þeir eru í dag get ég í sjálfu sér ekki sagt til um enda finnst mér það svolítið sérstök spurning í stóra samhenginu.

Það er mjög mikilvægt að deila áfram þeim góða árangri sem náðst hefur í þróunarsamvinnu. Að sjálfsögðu hljótum við að gera það, líkt og annað sem við segjum frá. Ráðuneytið segir frá hellingi af hlutum sem verið er að gera, t.d. varðandi alþjóðlega þróunarsamvinnu og hvaðeina. Þingmaður þarf ekki að hafa áhyggjur af því að minna verði sagt frá þeim góðu verkum sem verið er að vinna.