145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:46]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Þegar ráðherra talar um að ég þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að eftirlit verði ekki sambærilegt og að nú sé loks verið að taka út skóla Sameinuðu þjóðanna, verðum við að hafa í huga að fortíðin sýnir að við þurfum að hafa áhyggjur. Starfsemin innan ráðuneyta er með öðrum hætti en í sjálfstæðum stofnunum og því ekki óeðlilegt að óháðir aðilar taki verkin út.

Þeir samningar sem Þróunarsamvinnustofnun hefur haft með höndum hafa verið yfirfarnir og endurskoðaðir, eins og ráðherra þekkir, á ákveðnu ára tímabili; verkefni tekin út og farið yfir það. Það er kannski það sem gagnrýni Ríkisendurskoðunar byggir á, að það hefur ekki tíðkast innan ráðuneyta. Það er það sem ég er að spyrja um.

Mér finnst skipta máli hvort Heimsljós lifir eða ekki. Það er fagtímarit, byggt á öðrum forsendum en upplýsingagjöf úr ráðuneytum. Það var það sem ég var að spyrja um. Við getum sagt að hún sé óháð framkvæmdarvaldinu, sú upplýsingagjöf sem þar fer fram og safnast saman. Mér finnst það vera allt annað en upplýsingagjöf úr ráðuneyti.