145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

afstaða stjórnvalda til öryggismála.

[10:33]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er nokkuð erfitt að átta sig á stefnu stjórnvalda hvað varðar öryggi borgaranna, vörslu ytri landamæra og almennan öryggisviðbúnað þegar maður les blöðin í morgun. Þetta er bagalegt vegna þess að það hefur aldrei verið meiri þörf á skýrleika í þessu efni en nú þegar hætta steðjar mögulega að.

Við sjáum í Morgunblaðinu að forsætisráðherra lýsir almennu frati á Schengen-samstarfið. Vissulega er það samstarf í miklum vanda í dag. Það er mikilvægt að herða eftirlit á ytri landamærum samstarfsins og það er líka mjög mikilvægt að gæta að þeirri miklu hættu sem við stöndum frammi fyrir ef Schengen-samstarfsins nýtur ekki lengur við. Forsætisráðherra Íslands er hins vegar ekki þar, hann er eini forustumaður Evrópuríkis sem lýsir því yfir að það sé bara ekkert virði í Schengen-samstarfinu. Punktur. Allir aðrir tala um mikilvægi þess að finna leiðir til að láta það virka, en forsætisráðherra Íslands er einn um að lýsa almennu frati á þetta samstarf og þann mikla árangur sem það hefur skapað í að opna landamæri og tryggja öryggi okkar allra.

Ég hef skilið hæstv. innanríkisráðherra þannig að hún standi með okkur sem tölum fyrir opnum landamærum og samvinnu við önnur ríki í þessum efnum. Mér þætti gaman að heyra staðfestingu hennar á því. Hún fer auðvitað með þennan málaflokk óháð því hvað hæstv. forsætisráðherra sagði í morgun.

Svo verð ég líka að spyrja um frétt í Fréttablaðinu í morgun um að til standi að setja vopn í alla lögreglubíla á næstu vikum. Hæstv. ráðherra hefur talað fyrir gagnsæi um vopnaviðbúnað lögreglu. Stóð ekki til að ræða þetta við Alþingi Íslendinga? Þetta er stór ákvörðun. Hvenær á að ræða hana? Eru það réttar fréttir sem þarna berast? Og hvenær á að ræða þennan þátt?