145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

vopnaburður lögreglunnar.

[10:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í Fréttablaðinu í morgun fréttum við af því að til stæði að lögreglan vopnaðist byssum í bílum, nánar til tekið skammbyssum, auðvitað í læstum kassa sem ekki er hægt að opna nema með einhverjum kóða o.s.frv. Þetta er enn eitt skrefið í þróuninni sem fær mig til að hamra enn og aftur á mikilvægi þess að fyrir hendi sé sjálfstætt eftirlit með lögreglu á Íslandi. Nú hefur verið lögð fram þingsályktunartillaga þess efnis og hefur hún farið til nefndar. Í umsögn Lögreglustjórafélags Íslands kemur fram að það ágæta félag telur að það sé ráð að bíða með það mál þar til nefnd um meðferð kærumála og kvartana á hendur lögreglu skili niðurstöðum sínum um það. Ég tel mikilvægt að við áttum okkur á því hvar það mál stendur nákvæmlega.

Sífellt meiri krafa er um að lögregla beri vopn, og um auknar valdheimildir og slíkt. Sömuleiðis er krafa um sjálfstætt eftirlit hér á bæ, alla vega af hálfu okkar pírata og fleiri. Það er sífellt meiri krafa um aukið fjármagn til lögreglu, sem ég styð, en þó fyrst og fremst til að koma til móts við manneklu og lág laun hjá lögreglunni að mínu mati. Ég hef áhyggjur af því að þeir peningar sem veita þarf til lögreglunnar fari frekar og of snemma í vopnabúnað og slíkt áður en sjálfstæðu eftirliti hefur verið komið á fót. Þess vegna tel ég, í ljósi sífellt meiri krafna um vopnabúnað og auknar valdheimildir lögreglu o.s.frv., að meira liggi á að koma á sjálfstæðu eftirliti lögreglu. Því þykir mér mikilvægt að nefndin skili af sér sem fyrst þannig að við getum haldið áfram umræðunni um það mikilvæga mál. Ég velti fyrir mér hvenær nefndin hyggist skila niðurstöðum sínum.