145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

fjárveitingar til lögreglu.

[11:04]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta eru sannarlega tíðindi því að mikið hefur verið klappað fyrir þessum nýju 400 milljónum sem eiga að ganga til lögreglunnar. Hæstv. ráðherra og stjórnarmeirihlutinn og reyndar þingið allt átti ekki í vandræðum með að segja að 500 milljónirnar sem runnu til embættisins vegna tillögu frá þingmannanefnd færu ekki í að greiða niður hallann. En það er greinilega ekki búið að gera ráð fyrir því í þessu tilfelli og því er rétt að hafa áhyggjur vegna þess að það er rétt að álag á lögregluna hefur komið niður á þjónustu við íbúa. Nú stendur yfir alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi sem hófst í gær með alþjóðlegum baráttudegi gegn ofbeldi gegn konum. Ofbeldi gegn konum á sér oftast stað innan veggja heimila. Íbúar hafa áhyggjur af því að álag á lögreglu komi niður á átaksverkefnum sem lögreglan hefur samið um við sveitarfélögin. Ég vil spyrja (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra hvernig staðan er á verkefnunum sem tengjast heimilisofbeldi og hvort fjármunir (Forseti hringir.) til þeirra verkefna séu skornir niður vegna álags á lögregluna.