145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[11:14]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra í gær, og hv. þingmaður hefði haft bæði gagn og gaman af að heyra umræðuna um þennan málaflokk, að þetta væri ekki hugsað sem hagræðingaraðgerð. Það er ánægjulegt að varaformaður fjárlaganefndar sér einhver sóknarfæri í því og það er þá enn og aftur til marks um að menn eru ekki að tala saman í þessari ágætu ríkisstjórn eða stjórnarflokkunum almennt.

Hér er um að ræða part af stóru myndinni. Hér er um að ræða lítilsvirðingu við málaflokkinn í heild og þess vegna er sjálfsagt og eðlilegt að tala um framlög til þróunarsamvinnu í sömu andrá og verið er að tala um að leggja niður fagstofnun. Að sjálfsögðu á að tala um það í sömu andrá. Hér höfum við talað lengi um þetta mál og við höfum talað lengi gegn því, við höfum engin rök heyrt með því að þetta sé góð ráðstöfun þannig að við í VG greiðum atkvæði gegn þessu máli. Því hefur verið lofað að taka málið inn til nefndar og skoða það, og ég vona að það verði með opnum hug. Ég vona að hæstv. ráðherra trufli ekki þá vinnu, ég vona sannarlega að hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) beiti ekki áhrifum sínum til að þeir nefndarfundir verði bara sjónarspil.