145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[11:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er ekki annað hægt en að setja þetta mál í samhengi við dapurlega frammistöðu ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki sem er óendanlega dapurleg og niðurlægir Ísland, að við skulum þriðja árið í röð á tímum batnandi þjóðarhags hjakka í sama farinu, með 0,21% af vergri landsframleiðslu til þróunarsamvinnu.

Það kemur mér ekki á óvart að núverandi forusta Framsóknarflokksins hafi þessa afstöðu undir glæstri forustu formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur. (VigH: … handa mér …) Hæstv. fjármálaráðherra gæti hins vegar litið til skoðanabróður síns í Bretlandi, Camerons, þar sem nú eru meiri efnahagserfiðleikar en eru á Íslandi. Þar hvika menn ekki frá því að Bretland uppfylli markmið sín um 0,7% af vergri landsframleiðslu til þróunaraðstoðar. Það væri gott fordæmi, aldrei þessu vant, fyrir hæstv. fjármálaráðherra að fylgja í þessu tilviki breskum íhaldsmönnum. Það að slá af fagstofnunina á þessu sviði er auðvitað táknrænt, (Forseti hringir.) það er punkturinn yfir i-ið í þessari lágkúru ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar sem þetta auðvitað er, að Ísland, eitt ríkasta land í heiminum, skuli ætla að standa svona að málum. (Gripið fram í.)