145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[11:23]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Staðan í alþjóðamálum er því miður þannig að það er fyrirséð að mikilvægi þróunarsamvinnu mun ekki fara minnkandi í bráð. Mér finnst því alveg óskaplega dapurlegt að ein af ríkustu þjóðum heims ætli að fara að gera breytingar á sínum stofnanastrúktúr sem, líkt og hér hafa verið færð rök fyrir á síðustu dögum, leiða til þess að líklegt er að fagþekking glatist og gagnsæi í málaflokknum minnki. Ég get ekki sagt annað en að mér finnst það mál sem hér er til umræðu afar slæmt og mun því að sjálfsögðu greiða atkvæði gegn því.