145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[11:27]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Mér finnst oft athyglisvert og jafnvel á stundum fyndið að fylgjast með því til hvaða raka fólk grípur þegar það reynir að rökstyðja slæman málflutning. Að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun, faglega stofnun um þróunarmál á Íslandi, stofnun sem hefur fengið mjög góða einkunn í öllum úttektum, heitir núna í umræðunni af hálfu stjórnarliða að efla slagkraftinn í þróunarmálum. Megum við eiga von á því að sjá meira svona? Verður Samgöngustofa lögð niður og færð inn í ráðuneytið sem deild í ráðuneytinu til að efla slagkraftinn í þeim málum? Verður Hafrannsóknastofnun lögð niður og færð inn í atvinnuvegaráðuneytið sem deild þar til að efla slagkraftinn? Verður Jafnréttisstofa lögð niður og færð inn í einhverja deild í velferðarráðuneytinu til að efla slagkraftinn í jafnréttismálum?

Mér finnst ekki standa steinn yfir steini (Forseti hringir.) í þessum málflutningi. Augljóslega ætti frekar að efla Þróunarsamvinnustofnun, hina faglegu stofnun um málaflokkinn, ef menn ætluðu að auka slagkraftinn.