145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[11:33]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það fer eitthvað fyrir brjóstið á hv. þingmönnum í stjórnarandstöðunni þegar farið er yfir söguskýringar hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og enn og aftur reyna þau að bera á hann sögufölsun. Þau kannast ekki við það sem þar er sagt og segja það allt saman lygi. Ég held að það sé orðið tímabært að hv. þm. Össur Skarphéðinsson geri grein fyrir því hvort hann hafi verið að stunda mikla sögufölsun í sínu riti. Ég ætla að trúa þessu og þannig var það bara á síðasta kjörtímabili árið 2012 að líf ríkisstjórnarinnar hékk á bláþræði fyrir afgreiðslu fjárlagafrumvarps til 3. umr. og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem hér af miklu yfirlæti kallar menn fífl utan úr sal, átti þátt í þessari vinnu. (Forseti hringir.) Það var hann sem ætlaði ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra, að draga verulega úr þessum framlögum (Forseti hringir.) og Össur Skarphéðinsson setti þeim stólinn fyrir dyrnar og setti líf ríkisstjórnarinnar að veði. (Forseti hringir.) Þetta eru bara staðreyndir máls.