145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[11:40]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að tala í umræðu um þessa atkvæðagreiðslu en framganga stjórnarmeirihlutans hér er með þeim hætti að mér fellur allur ketill í eld. Hér er það upplýst af varaformanni fjárlaganefndar að hann sjái tækifæri til að spara í þessum málaflokki og það sé ástæðan fyrir því að verið er að gera grundvallarbreytingar þvert á það sem áður hefur verið sagt.

Hér reyna menn með smjörklípuaðferðum að dreifa athyglinni frá þeirri staðreynd að þessi stjórnarmeirihluti, ráðherrarnir á ráðherrabekkjunum sem samþykktu þróunarsamvinnuáætlun á síðasta kjörtímabili, hefur svikið loforð sem hann hefur gefið fátækustu þjóðum í heimi þótt forustumenn í öðrum vestrænum ríkjum hafi forgangsraðað í þágu þróunaraðstoðar. Þetta er staðreynd málsins, (Forseti hringir.) áhugaleysi á þróunarsamvinnu og að því er virðist einbeittur brotavilji stjórnarmeirihlutans til að draga úr vægi hennar og minnka framlög.