145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[11:41]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í þessu máli greinir menn á um hvort Þróunarsamvinnustofnun eigi að fara inn í ráðuneytið eða ekki. Um það snýst þetta frumvarp.

Hvað varðar fjárframlög til þróunarsamvinnu tek ég undir með hæstv. fjármálaráðherra vegna þess að hvað sem hver segir í þessum sal er sú krónutala sem fer í þróunarsamvinnu í þessum fjárlögum og á þessu ári og fyrir árið 2016 margfalt hærri en nokkru sinni fyrr. Um það getum við þó væntanlega verið sammála, að krónutalan sem við leggjum til er miklu hærri en nokkru sinni fyrr, þó að okkur greini á um það hvort Þróunarsamvinnustofnun eigi að vera í ráðuneytinu eða sjálfstæð stofnun.

Hættum að ráðast hvert á annað fyrir eitthvað sem einhver hefur sagt eða gert. Reynum stundum, og í þessu máli líka, (Gripið fram í.) að greina þetta tvennt að. Fleiri krónur fara í þróunarsamvinnu (Forseti hringir.) núna en nokkru sinni fyrr en okkur greinir á um hvar Þróunarsamvinnustofnunin á að vera. Um það snýst þetta mál og fjárlögin einnig.