145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[11:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hvað þýðir það ef við náum að sameina stofnanir? Hvað þýðir það? Að því gefnu að það sé vel framkvæmt náum við alla jafna betri nýtingu út úr fjármunum. Og hverjir munu hagnast mest á því? Þeir sem munu njóta fjármunanna, í þessu tilfelli fátækasta fólkið í heiminum sem fer þó sem betur fer fækkandi.

Ef menn eru í alvöru áhugasamir um það, og ég ætla mönnum ekki annað, að hjálpa þeim sem fátækastir eru hljótum við líka að beina þeim fjármunum sem við setjum meðal annars í þróunaraðstoð til ESB til þeirra sem minnst hafa. Ég hlakka til að fá stuðninginn frá hv. stjórnarandstöðuþingmönnum við það.

Við vorum einu sinni fátækasta þjóðin í Vestur-Evrópu og við hefðum aldrei komist á þann stað sem við erum á núna nema vegna þess að við höfðum aðgang að öðrum mörkuðum (Forseti hringir.) með fríverslun. Það sem þessi ríkisstjórn hefur gert, m.a. með því að afnema tolla, er að hjálpa til sjálfshjálpar þeim sem eru fátækastir.