145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[11:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það hefði verið óskandi að stjórnarmeirihlutinn hefði tekið þátt í þessari umræðu og skipst á skoðunum við okkur sem höfum verið að ræða þessi mál en notaði ekki tímann núna í umræðu um atkvæðagreiðsluna til að koma fram með svona ómerkilegan skæting og niðurrif í þessari umræðu. Það setur ömurlegan blæ á þetta mál hvernig við Íslendingar getum verið að kýtast um eitthvað eins og (Gripið fram í.) hv. þingmenn Jón Gunnarsson og Vigdís Hauksdóttir gera, að færa málið niður á svo lágt plan að það (Gripið fram í.) á ekki heima í sölum Alþingis. (Forseti hringir.) Það er sorglegt og okkur öllum til skammar að bjóða upp á slíka umræðu við svona tækifæri. Það að draga enn og aftur einhverja bók inn í umræðuna, ég ætla ekki að nefna það, (Gripið fram í.) er ekki fyndið, hv. þm. Jón Gunnarsson. Ég held að siðameistari ríkisins ætti að halda námskeið fyrir suma þingmenn. [Háreysti í þingsal.]