145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[11:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um opinber fjármál frá meiri hluta fjárlaganefndar. Við í meiri hlutanum leggjum til að frumvarpið verði samþykkt. Meðflutningsmenn mínir á þessu nefndaráliti eru auk mín hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, með fyrirvara, hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, hv. þm. Brynhildur Pétursdóttur, hv. þm. Fjóla Hrund Björnsdóttir, hv. þm. Valgerður Gunnarsdóttir og hv. þm. Haraldur Benediktsson. Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sat hjá við afgreiðslu málsins og skrifar ekki undir álit þetta. Þrátt fyrir það er óhætt að segja að í meginstefinu sé viðkomandi þingmaður nokkuð sammála þeim meiri hluta sem undir þetta nefndarálit skrifar þrátt fyrir að hún hafi ekki séð sér fært að vera með okkur á nefndarálitinu.

Í upphafi vil ég þakka fjárlaganefnd allri kærlega fyrir gott samstarf því að þetta frumvarp hefur verið í fjárlaganefnd frá síðustu kosningum. Fyrsta þingið fengum við frumvarpið til umræðu, en það fór ekki út úr fjárlaganefnd, og á síðasta þingi varð frumvarpið nokkuð fullrætt og var tekið út úr fjárlaganefnd, að vísu í meiri ágreiningi en nú er, en svo flutti hæstv. fjármálaráðherra málið aftur á þessu þingi og með þessum árangri.

Virðulegi forseti. Vinnan í fjárlaganefnd hefur verið mjög góð og er ég ánægð með það hversu faglegar og efnislegar umræður hafa skapast um frumvarpið.

Varðandi tilgang og forsögu þessa frumvarps er því ætlað, ef það verður að lögum, að taka við af lögum nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, sem eru að verða 20 ára gömul og því full ástæða til að endurskoða þau. Á sínum tíma voru lögin frá 1997 tímamótalög sem skipuðu Íslandi framarlega meðal aðildarríkja OECD, sérstaklega varðandi reikningshald og samanburð fjárlaga og ríkisreiknings. Í kjölfar bankakreppunnar árið 2008 hafa fjölmörg ríki endurskoðað lagagrunn og verklag við utanumhald ríkisfjármála og fjárlagagerð sérstaklega. Ísland hefur því ekki lengur sérstöðu að því leyti og gildandi lög um fjárreiður ríkisins fjalla aðeins lítillega um sjálfa fjárlagagerðina og stefnumörkun í ríkisfjármálum.

Við undirbúning frumvarpsins átti fjármála- og efnahagsráðuneytið fundi með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og leitaði víða fanga, enda um að ræða eitt viðamesta frumvarp sem ráðuneytið hefur samið. Frumvarpið hefur verið í undirbúningi frá því í nóvember 2011, sem var þá í tíð síðustu ríkisstjórnar, ég bendi á að tvær ríkisstjórnir hafa komið að vinnu þessa frumvarps enda málið umfangsmikið, en þá var skipaður sérstakur stýrihópur sem hefur haft yfirumsjón með verkefninu. Stýrihópurinn skipaði vinnuhópa og samtals hafa tugir starfsmanna ráðuneyta, Ríkisendurskoðunar, Fjársýslu ríkisins og Hagstofu Íslands, auk ýmissa ráðgjafa, komið að gerð frumvarpsins.

Ákvæðum frumvarpsins er bæði ætlað að skapa ramma fyrir skilvirka beitingu fjármálastefnu hins opinbera og samhæfa hana við peningamálastefnu Seðlabanka Íslands. Stefnumörkun í opinberum fjármálum skal gerð til langs tíma og ákvarðanir í peningamálum skulu teknar út frá þeim forsendum sem fram koma í langtímaáætlun um ríkisfjármál. Samhæfing markmiða fjármálastefnu og peningamálastefnu skiptir miklu máli fyrir farsæla hagstjórn og stöðugleika í efnahagsmálum. Í opinberum fjármálum eru markmiðin sett fram í fjármálastefnu til lengri tíma sem stuðla skal að sjálfbærni opinberra fjármála og stöðugleika í efnahagslífinu. Við gerð frumvarpsins byggði stýrihópurinn og fjármála- og efnahagsráðuneytið á úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á umgjörð opinberra fjármála á Íslandi. Starfsmenn sjóðsins hafa fylgt úttektinni eftir með heimsóknum til Íslands og þrívegis hefur fjárlaganefnd fundað með sendinefndum sjóðsins.

Frumvarpið er umfangsmesta frumvarp sem vísað hefur verið til fjárlaganefndar um árabil. Ákvæðum þess er ætlað að ná til fjármála hins opinbera í heild, þ.e. bæði ríkis og sveitarfélaga, og er það nýmæli. Þar eru ákvæði um margvíslega áætlanagerð og skýrslugjöf sem ætlað er að efla langtímahugsun og ábyrgð í fjármálum auk þess að bæta árlega fjárlagagerð. Ákvæðunum er einnig ætlað að styrkja framkvæmd fjárlaga en í samanburði við önnur ríki OECD hefur framkvæmdin verið með lakasta móti hérlendis. Þá er að finna ákvæði í frumvarpinu um innleiðingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla. Því má segja að í frumvarpinu sé fjallað um allar hliðar opinberra fjármála.

Síðasta vetur heimsótti nefndin fjárlaganefnd sænska þingsins, sænsku ríkisendurskoðunina og fjármálaráð Svíþjóðar. Það var gert til þess að nefndin hefði alþjóðlegan samanburð í störfum sínum og tilgangur heimsóknarinnar var að fá sem bestar upplýsingar um reynslu og löggjöf Svíþjóðar þegar kemur að ríkisfjármálum. Eftir bankakreppu í Svíþjóð fyrir 25 árum voru ríkisfjármálin tekin til gagngerrar endurskoðunar þar í landi og löggjöf og verklagi í þinginu umbylt með þeim árangri að kreppan árið 2008 leiddi ekki til jafn mikils halla á ríkisfjármálum og almennt gerðist í löndum Evrópu eða innan aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD.

Til undirbúnings að nefndarálitinu hefur nefndin aflað sér ýmissa gagna og upplýsinga frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, OECD, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, fjármálaráði Bretlands og fleiri aðilum.

Frumvarpið var fyrst lagt fram, eins og ég sagði, í þessari mynd á 143. þingi og nefndin fjallaði líka ítarlega um frumvarpið á 144. þingi, eins og ég fór yfir áðan, og nú glittir vel í að þetta frumvarp verði að lögum fyrir áramót og fagna ég því mjög.

Á þessu þingi hefur nefndin fjallað um málið á sjö fundum og fengið til sín fjölda gesta eins og vera ber og þetta er árangurinn, virðulegi forseti.

Ef við förum aðeins nánar í frumvarpið er nefndarálitinu kaflaskipt í ljósi umfangs málsins í samræmi við kafla frumvarpsins. Í I. kafla er fjallað um markmið, gildissvið og skilgreiningar, í II. kafla um stefnumörkun í opinberum fjármálum, í þeim III. um fjárheimildir í frumvarpi til fjárlaga, í IV. kafla er fjallað um framkvæmd fjárlaga og loks er sérstakur kafli um reikningsskil og skýrslugerð. Að lokum er niðurlag eða lokaniðurstaða.

Ég ætla aðeins, virðulegi forseti, að fara núna yfir kaflana og hvet fólk til að kynna sér efni frumvarpsins, sem er 148. mál á þskj. 148, og hafa til hliðsjónar þær breytingartillögur sem meiri hlutinn leggur til og finna má á þskj. 482 í sama máli. Hér eru breytingartillögur frá meiri hlutanum upp á 13 liði.

Förum aðeins yfir I. kaflann, markmið, gildissvið og orðskýringar. Í gildandi lögum um fjárreiður ríkisins er ekki fjallað um markmið laganna en bætt er úr því í þessu frumvarpi. Nýmæli er að frumvarpið tekur til opinberra aðila í heild sinni, þ.e. ekki aðeins til ríkisins og ríkisfyrirtækja heldur einnig til fjármála sveitarfélaganna. Við gerð frumvarpsins var meðal annars litið til norrænar löggjafar um opinber fjármál, einkum í Svíþjóð. Í sænskum lögum um ríkisfjármál er meðal annars kveðið á um skyldur til að leggja fram tillögur að markmiðum um jöfnuð í ríkisfjármálum í voráætlun ásamt skiptingu útgjalda í 27 málefnasvið. Þá skal í áætluninni fjallað um samspil ríkisfjármála og markmiða ESB í efnahagsmálum, þróun tekna og gjalda ríkisins og umfjöllun um fjármál sveitarfélaga og sjálfbærni í fjármálum hins opinbera til lengri tíma. Mörg þessara atriða eru tekin inn í frumvarpið um opinber fjármál.

Í II. kafla frumvarpsins er að finna yfirsýn og stefnumörkun í opinberum fjármálum. Helstu nýmæli í þeim kafla snúa að fjármálastefnu, fjármálaáætlun, fjármálareglum og stofnun sérstaks fjármálaráðs. Fjallað er ítarlega um þessi skjöl og grunngildi fjármálastefnu og fjármálaáætlunar sem eru fest í sessi. Nefndin hefur lagt mikla vinnu í umfjöllun um einstakar greinar þessa kafla enda vakna kannski flestar spurningarnar þar því að þarna er verið að setja lagaramma um framtíðarstefnumörkun í opinberum málum.

Meiri hlutinn leggur til að við 5. gr. frumvarpsins, um fjármálaáætlun, verði bætt eftirfarandi málslið:

Einnig skal setja markmið um nafnverðsaukningu heildarútgjalda og markmið um hlutfall heildarskulda, að meðtöldum lífeyrisskuldbindingum, af vergri landsframleiðslu.

Tilgangur með þessu er að vekja sérstaklega athygli á nauðsyn þess að stýra útgjöldum hins opinbera óháð áætlun um tekjur. Það sýndi sig á árunum fyrir bankahrunið 2008 að jafnvel þótt afkoma hins opinbera væri viðunandi hækkuðu útgjöldin mjög mikið milli ára og meira en í þeim ríkjum sem við berum okkur helst saman við. Einnig er nauðsynlegt að líta til þróunar lífeyrisskuldbindinga í ríkari mæli en gert hefur verið fram til þessa. Núna er til dæmis ekkert litið til þeirra við kostnaðarmat kjarasamninga þrátt fyrir að nýlegir kjarasamningar við opinbera starfsmenn geti kallað á hækkun lífeyrisskuldbindinga um tugi milljarða króna. Með þessari breytingartillögu ítrekar meiri hlutinn nauðsyn þess að hið opinbera setji sér markmið um þróun ríkisútgjalda og lífeyrisskuldbindinga án þess þó að lögbinda þau nema sem hluta af þingsályktun um fjármálaáætlun.

Síðan er í 6. gr. frumvarpsins fjallað um grunngildi fjármálastefnu og fjármálaáætlunar. Í 7. gr. frumvarpsins er fjallað um skilyrðin. Þar koma fram svokallaðar fjármálareglur sem taka til skuldaviðmiðs, afkomu hins opinbera og aðlögunarreglu, þ.e. hve hratt á að greiða niður skuldir ríkisins. Nefndin kannaði hvort yfir höfuð væri þörf á tölulegum fjármálareglum eins og fram koma í 7. gr. frumvarpsins. Við þá vinnu var meðal annars nýtt vinna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem sérstaklega hefur kannað notkun þjóðríkja á fjármálareglum. Samkvæmt athugun sjóðsins á ríkisfjármálum 81 þjóðríkis eru 76 þeirra með fjármálareglur af einhverju tagi. Ýmist eru það yfirþjóðlegar reglur, eins og Maastricht-skilyrðin hjá ESB, eða lögfestar reglur í einstökum ríkjum. Ísland er eitt af aðeins fimm ríkjum þar sem engar fjármálareglur eru í gildi. Langalgengast er að settar séu fjármálareglur um skuldaþak og kröfur um tiltekna afkomu en það er í samræmi við það sem lagt er til í frumvarpi þessu. Niðurstaða meiri hlutans er sú að full ástæða sé til þess að lögfesta þær reglur sem fram koma í 7. gr. frumvarpsins.

Meiri hlutinn lagði jafnframt mat á hvort bæta ætti við svokallaðri útgjaldareglu sem væri í samræmi við umsögn Samtaka atvinnulífsins og ég talaði mjög fyrir í nefndinni. Í því felst að setja þak á útgjaldavöxt hins opinbera þannig að hann megi ekki aukast um meira en sem nemur verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands að viðbættum langtímameðalhagvexti. Reynslan sýnir að þegar uppsveifla er í hagkerfinu reynist oft erfitt að hemja útgjaldavöxt. Á móti vegur að í sveiflukenndu hagkerfi, eins og því íslenska, getur verið bagalegt að binda útgjaldavöxtinn með þessum hætti. Þar sem fjármálareglan um afkomu er ekki bundin við hagsveifluleiðréttan hagvöxt er talið fullnægjandi að markmið um nafnvöxt útgjalda verði útfærð í árlegri fjármálaáætlun í stað þess að vera lögbundin. Þarna var farinn millivegur. Ég talaði mjög fyrir útgjaldareglunni á meðan aðrir nefndarmenn gerðu það ekki þannig að þessi millileið var farin og er ég ánægð með niðurstöðuna. Í umsögn Ríkisendurskoðunar um frumvarpið kemur fram gagnrýni á útreikning á skuldahlutfalli en nú er búið að jafna þann ágreining og kallar það ekki á að lögð verði fram tillaga um breytingu á 7. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn vekur athygli á því að nú er gert ráð fyrir að ná markmiði um að skuldahlutfall fari niður fyrir 30% af vergri landsframleiðslu, en á síðasta þingi var miðað við 45% skuldahlutfall. Þarna er breyting á milli þinga sem við teljum mjög til bóta. Þessi breyting endurspeglar spár um áframhaldandi hagvöxt sem bendir til þess að óhætt sé að breyta skuldahlutfallsreglunni þannig að hún leiði til meira aðhalds í ríkisrekstri en nú er. Æskilegt er að skuldaviðmiðið verði endurskoðað og ákvarðað að nýju þegar náðst hefur að lækka skuldir ríkissjóðs umfram tiltekin mörk frá því sem nú er.

Við 9. gr. frumvarpsins, um horfur og þróun til lengri tíma, leggur meiri hlutinn til breytingu sem felur í sér að ráðherra skuli, þegar hann metur horfur til lengri tíma, einnig leggja mat á hvaða áhrif líklegt er að afkoma, fjárhagsstaða og skuldbindingar opinberra aðila hafi á þróun byggðar í landinu, einkanlega með tilliti til stöðu hinna dreifðu byggða.

Við 10. gr. frumvarpsins, um endurskoðun fjármálastefnu, er lögð til breyting í þá veru að tiltekið verði að endurskoðuð fjármálastefna sé til að minnsta kosti fimm ára og í ákveðnum tilvikum sé heimilt að víkja í þrjú ár til viðbótar frá skilyrðum 7. gr. í stað tveggja ára eins og er í frumvarpinu. Með breytingunni gefist meira svigrúm til að bregðast við ef grundvallarforsendur fjármálastefnu bresta sem við vonumst til að ekki komi til, að við þurfum að beita þessari grein í framtíðinni, en þarna er verið að vísa til aðstæðna eins og urðu til að mynda í bankahruninu. Þarna sláum við þann varnagla að lengja heimildina í þrjú ár í stað tveggja.

Í 11. gr. frumvarpsins er fjallað um samskipti og samráð ríkis og sveitarfélaga og hafa nefndinni borist athugasemdir Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem lýst er áhyggjum af framkvæmd fjármálareglna fyrir hið opinbera í heild sinni. Nú þegar eru í gildi fjármálareglur fyrir sveitarfélögin samkvæmt sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, og hafa þær gefið góða raun, enda eru fjármál sveitarfélaga að meðaltali í betra horfi nú en fyrir nokkrum árum þó að reyndar horfi til verri vegar á yfirstandandi ári. Fjármálareglur sveitarfélaganna snúa að útgjöldum og skuldum í hlutfalli við tekjur og taka bæði til A- og B-hluta þeirra. Meiri hlutinn telur ekki ástæðu til að leggja til breytingar á frumvarpinu um samskipti ríkis og sveitarfélaga en bendir á að meginþunginn í aðlögun að markmiðum fjármálastefnu og fjármálaáætlunar muni hvíla á ríkissjóði þótt sveitarfélögin þurfi að leggja sitt af mörkum til að markmið um jákvæðan heildarjöfnuð, ásættanlega skuldastöðu og eftir atvikum lækkun skulda gangi eftir. Við þau skilyrði þegar sveitarfélögin uppfylla fjármálareglur sveitarstjórnarlaga hvílir aðlögunin alfarið hjá ríkissjóði.

Í 13. gr. frumvarpsins er fjallað um fjármálaráð og hefur nefndin víða leitað fanga í því skyni að kynna sér til hlítar verkefni og starfsemi fjármálaráða innan OECD-ríkjanna. Frá bankahruninu árið 2008 hefur fjármálaráðum fjölgað verulega, en fram til þess tíma voru fjármálaráð í þremur til fjórum ríkjum, en nú eru þau orðin að minnsta kosti 20 talsins. Auk þess má finna fjármálaráð á sveitarstjórnarstigi í einstökum ríkjum.

III. kaflinn er um frumvarp til fjárlaga, fjárheimildir. Í ákvæðum frumvarpsins felst grundvallarbreyting á framsetningu fjárlagafrumvarps. Byggt er á því að Alþingi veiti fjárheimildir til málefnasviða og málaflokka, auk framlags í almennan varasjóð. Ekki er gert ráð fyrir því að fjárveitingar til einstakra ríkisstofnana birtist í frumvarpi til fjárlaga, heldur einungis í fylgiriti. Fjárheimildir verða sundurliðaðar eftir málefnasviðum og málaflokkum. Nú er sérgreind viðfangsefni á gjaldahlið fjárlaga að finna í sundurliðun 2 í fjárlagafrumvarpi og eru þau um 900 talsins. Með þessari breytingu er miðað við að gjaldaliðir fjárlaga skiptist í 34 málefnasvið sem aftur skiptast í um 105 málaflokka. Ávinningurinn af þessari breytingu felst í því að Alþingi fjallar þá um stærri málefni og skiptingu útgjalda í stórum dráttum og stefnumótun til lengri tíma í stað þess að fjalla um fjárveitingar til einstakra viðfangsefna sem oft vega mjög lítið í heildarútgjöldum ríkisins. Jafnframt felst í þessu meiri ábyrgð hjá einstökum ráðherrum sem eru ábyrgir fyrir skiptingu fjárheimilda í fjárveitingar til einstakra stofnana. Í kaflanum eru miklu ítarlegri ákvæði um innihald fjárlagafrumvarps en í gildandi lögum, auk nokkurra annarra nýmæla, svo sem um kynjaða fjárlagagerð.

Meiri hlutinn leggur fram nokkrar breytingartillögur við greinar kaflans en telur að meginmarkmiðin um fækkun fjárlagaliða, aukna ábyrgð ráðherra og fjárveitingu í varasjóð til að takmarka fjáraukalög sem mest séu öll til bóta.

Lagt er til að við 14. gr., um frumvarp til fjárlaga, verði bætt eftirfarandi málsgrein:

Innan fjögurra vikna frá framlagningu frumvarps til fjárlaga skal Byggðastofnun gefa fjárlaganefnd Alþingis umsögn um áhrif frumvarpsins á byggðaþróun í landinu.

Í þessu felst meðal annars að í umsögn Byggðastofnunar skuli fjallað um hvernig stefna hvers ráðherra samkvæmt 20. gr. frumvarpsins, fyrir þau málaefnasvið og málaflokka sem hann ber ábyrgð á, samræmist byggðaáætlun og sóknaráætlunum landshluta sem fram koma í þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun.

Meiri hlutinn leggur einnig til að málsgrein verði bætt við 16. gr., um framsetningu frumvarps til fjárlaga, þar sem fram komi að talnagrunnur frumvarpsins skuli vera aðgengilegur á tölvutæku sniði og á opnum miðli og skuli þau gögn vera aðgengileg öllum almenningi til eftirvinnslu á tölvutækan máta. Með þessari viðbót er ætlunin að tölugrunnur fjárlaga hvers árs verði til dæmis auðveldlega samanburðarhæfur við fjárlög fyrri ára og ríkisreikning, en einnig að gögn fjárlaga nýtist betur til eftirvinnslu en áður, svo sem til skilvirkari greiningar og framsetningar.

Þess ber að geta, virðulegi forseti, að þarna var komið til móts við tillögu þingmanna Pírata um að setja inn það gagnsæisákvæði að almenningur gæti unnið með þær tölur sem birtast í fjárlögum hvers árs. Var samþykkt einróma í nefndinni að taka tillit til tillögunnar og lyfta þessu ákvæði með því að setja þetta inn í 16. gr. frumvarpsins. Það er gleðilegt og því er það einlæg von mín að Píratar komi til með að greiða þessu frumvarpi atkvæði sitt þar sem komið var til móts við þessa sjálfsögðu kröfu þeirra.

Svo er lagt til að við 19. gr. frumvarpsins, um fylgirit með frumvarpi til fjárlaga, verði bætt nýjum tölulið sem verði svohljóðandi:

Forsendur fjárveitinga sem byggjast á reiknilíkönum eða sérstökum reiknireglum og fyrirhugaðar breytingar á líkönunum eða reglunum.

Þingmenn hafa oft gagnrýnt að það sé erfitt að finna út úr því hversu miklar fjárveitingar fara í þá málaflokka sem byggja á þessum líkönum eins og varðandi menntaskóla, háskóla og fleiri atriði þannig að þarna hnykkir nefndin sérstaklega á því.

Í samræmi við umsagnir og tillögu fjármála- og efnahagsráðuneytisins er lagt til að orðalagi 20. gr. frumvarpsins, um stefnumótun fyrir málefnasvið, verði breytt þannig að fram komi að þar skuli fjalla um áherslur við innkaup. Breytingin er í góðu samræmi við áherslur fjárlaganefndar um nauðsyn þess að innkaup ríkisins séu tekin til gagngerrar endurskoðunar til að ná fram lækkun útgjalda og hagkvæmni í innkaupum. Þetta er mjög mikilvæg grein í ljósi umræðu síðustu ára um útboð ríkisins.

Meiri hlutinn vekur athygli á því að breytingar á framsetningu fjárlaga geta leitt til þess að endurskoða þurfi fyrirkomulag umræðu og atkvæðagreiðslu um frumvarp til fjárlaga og jafnvel þurfi að taka til endurskoðunar lög um þingsköp Alþingis. Það er ekki útilokað. Með samþykkt fjármálaáætlunar að vori eru fastsettir helstu þættir komandi fjárlagafrumvarps sem á að leggja fram. Eftir samþykkt þessa frumvarps verða tvær fjárlagaumræður í þinginu, önnur að vori og hin að hausti. Að vori er lagður fram rammi frá öllum ráðherrum þar sem þeir koma fram með áherslur sínar um hversu mikið fé skuli fara til hvers málaflokks og síðan til málefnasviða og þá skapast svigrúm fyrir þingmenn til að koma langtum fyrr að fjárlagaumræðu en samkvæmt núgildandi lögum. Ég tel þetta mjög til bóta því að svo verður málið sent aftur til fjármálaráðherra og það kemur fram í formi fjárlagafrumvarps að hausti. Þarna er komið til móts við þær óskir þingmanna að allir þingmenn komi að fjárlagaumræðunni, ekki bara ráðherrar ríkisstjórnar sem situr í hvert og eitt sinn og fjárlaganefnd, þannig að þetta er mjög til bóta.

Eftir að þessi fjármálaáætlun er samþykkt að vori, eins og ég sagði áðan, fer hún til baka og kemur svo aftur til þingsins.

Í IV. kafla er farið yfir framkvæmd fjárlaga og nú verð ég aðeins að herða mig vegna þess að tíminn er fljótur að líða.

Í V. kafla er fjallað um reikningsskil og skýrslugerð sem óþarft er að tala um. Ég verð aðeins að impra á því að fjárlaganefnd óskaði eftir kostnaðarmati fjármála- og efnahagsráðuneytisins við innleiðingu þessa frumvarps. Að mínu mati, sem formanns fjárlaganefndar, er of rúmt verðbilið sem sent var en ekki var hægt að leggja betra mat á það hvað innleiðing þessa frumvarps kostar. Við höfum lagt áherslu á það, formaður og varaformaður fjárlaganefndar, að það komi hagræðing á móti því að varanlegur kostnaður er áætlaður 372–480 milljónir. Þar á milli er stórt bil en tímabundinn kostnaður við innleiðinguna er áætlaður 438–616 milljónir. Þetta eru gríðarlega háar upphæðir, slaga upp í milljarð, en þá er það líka ósk og krafa okkar sem að þessu nefndaráliti stöndum að hagræðing í kerfinu komi á móti. Það er forsenda þess að mínu mati að það sé meðal annars réttlætanlegt að innleiða þessi lög þó að við séum öll sammála um að það verði að skerpa enn betur á rammanum um opinber fjármál til að ná fram þeim aga í ríkisrekstri sem við köllum öll eftir, að stoppa skuldasöfnun og að stofnanir og aðilar ríkisins haldi sig innan fjárlaga.

Eins og áður segir er áætlað að innleiðing frumvarpsins taki tvö til þrjú ár. Aðlögun að kröfum um stefnumótun í opinberum fjármálum og stefnumótun málefnasviða ráðuneyta og breytt reikningsskil mun kannski reyna mest á kerfið. Það verður að koma í ljós. Nokkrir aðilar eru búnir að taka starfshætti sína til endurskoðunar í ljósi þess að þetta frumvarp er á leiðinni þannig að vinnan er kannski komin lengra en hefði verið hefði frumvarpið orðið að lögum í vor. Það er mikið gleðiefni.

Meginmarkmið þessa frumvarps er að tryggja almannahag með því að treysta grunn stefnumörkunar í opinberum fjármálum. Við þurfum viðhorfsbreytingu á öllum sviðum og það er lykilatriði í innleiðingu nýrra vinnubragða. Ef þessa viðhorfsbreytingu skortir er hætta á því að fjöldi ákvæða um aukna og flóknari upplýsingagjöf, sem kveðið er á um í frumvarpinu, leiði aðeins til meiri rekstrarkostnaðar en skili ekki tilætluðum ávinningi. Það viljum við forðast í lengstu lög, virðulegi forseti. Því leggur meiri hlutinn til að þetta frumvarp verði samþykkt.

Meðflutningsmenn mína hef ég þegar lesið upp.

Að lokum, virðulegi forseti, langar mig að segja að mér sem formanni fjárlaganefndar hefur verið mikið ánægjuefni að leiða þessa vinnu í fjárlaganefnd allt þetta kjörtímabil og nú hefur myndast víðtæk sátt um þetta frumvarp sem hefur verið í vinnslu í tíð tveggja ríkisstjórna. Ég lýsi því yfir, virðulegi forseti, að hér er um nokkur tímamót að ræða, ekki síst fyrir Alþingi Íslendinga og ekki síður fjármálakerfi hins opinbera. Með þessum orðum lýk ég ræðu minni.