145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[12:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við lok máls síns kom hv. þingmaður, formaður fjárlaganefndar, inn á það að því mundi annars vegar fylgja nokkur kostnaður að starfrækja eða framkvæma vinnuna á þeim nýja grunni sem hér er lagður til og hins vegar einskiptiskostnaður við innleiðinguna. Það var náttúrlega löngu fyrirséð og rætt hér bæði í fyrra og í haust. Þegar málið kom til umræðu gerði ég það að umtalsefni að auðvitað væri augljóst að gera þyrfti verulegt átak í því að efla hvert og eitt fagráðuneyti til að það réði við hlutverk sitt samkvæmt þessum lögum. Þessar kostnaðartölur koma mér ekki á óvart og ekki heldur að það sé erfitt að tilgreina nákvæma krónutölu í því og að eitthvert verðbil sé þar á ferðinni. Mér blöskra ekki þessar tölur. Þvert á móti tel ég að það sé vel sloppið ef við komum þessu kerfi að fullu til framkvæmda fyrir kostnað á tveggja, þriggja ára tímabili sem verði undir 1 milljarði kr. og síðan séu það tölur af þessari stærðargráðu sem reikna megi með í viðbótarmannafla í ráðuneytunum og vinnu í ráðuneytunum sem bera miklu meiri ábyrgð í þessum efnum.

Það sem mig undrar er sú krafa hv. formanns fjárlaganefndar, og að mér heyrist líka varaformanns, að ráðuneytin verði að hagræða að öllu leyti á móti þessum kostnaði annars staðar í rekstri sínum. Það finnst mér skrýtin nálgun og ég spái því að hún gangi ekki upp eins og ég held að hagur ráðuneytanna sé eftir hinn sérstaka niðurskurð sem sömu manneskjur beittu sér fyrir við fjárlagaafgreiðslu fyrir ári.

Ég tel miklu frekar að líta eigi á þetta sem fjárfestingu. Ef við höfum trú á því, sem ég geri, að þetta verði til verulegra bóta hvað varðar fjárlagagerð, framkvæmd fjárlaga og stýringu ríkisfjármála eigum við að líta á þetta sem fjárfestingu í betri árangri og traustari ríkisbúskap inn í framtíðina. Ég tel þar af leiðandi þessa (Forseti hringir.) framsetningu líka af þeim ástæðum mjög sérkennilega.