145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[12:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir þetta andsvar.

Kostnaðurinn er vissulega mikill eins og ég fór yfir og það er verið að tala um að styrkja þurfi innviði fagráðuneytanna um þessar upphæðir, en það er líka ætlunin að stofna sérstakt fjármálaráð sem er inni í þessum tölum. Það þarf til dæmis að endurskoða eignaumsýslu ríkisins og efla innri endurskoðun. Inni í þessum tölum eru líka breytingar og uppfærslur á upplýsingakerfum Fjársýslu ríkisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins þannig að vissulega er alveg viðurkennt að hér er verið að fjárfesta í framtíðinni með því að styrkja þessar stofnanir að þessu leyti. Það er hins vegar rangt hjá þingmanninum að við varaformaður fjárlaganefndar höfum farið fram á hagræðingu í ráðuneytunum alveg upp að þeirri tölu sem þetta kostar. Við erum einfaldlega að vara við því að innleiðing þessa frumvarps leiði til þess að kerfið tútni óþarflega mikið út. Það er ekkert óeðlilegt að við sláum þann varnagla að þetta komi ekki þannig inn í ráðuneytin og inn í þær stofnanir sem frumvarpið hefur áhrif á að eitt nýtt lag bætist bara ofan á allt kerfið sem fyrir er, eins og hefur svo oft gerst þegar einhverju er breytt í rekstri ríkisins eða ráðuneytanna.

Við setjum einfaldlega fram þær hógværu kröfur að ráðuneytin verði skoðuð með það að leiðarljósi að fá sem mest úr þeim og færa til þá starfsmenn sem eru nú í þessum störfum og jafnframt að ráða einhverja nýja aðila til starfa þannig að nýtingin verði 100% og ekki verði bara um nýráðningar að ræða.