145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[14:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er allt hið áhugaverðasta mál og mjög til bóta að mínu mati. Ég ætla ekki að halda langa ræðu hérna, ég ætla aðeins að fara yfir eitt atriði sem oft hefur verið talað um í þessum þingsal og það er framsetning fjárlaga. Oft hefur verið kvartað undan því að framsetningin sé ekki nógu góð, ekki nógu skiljanleg eða eitthvað í þeim dúr. Það er vitaskuld alveg rétt.

Eitt sem við í Pírötum höfum lagt hvað mesta áherslu á, og ég þakka hv. fjárlaganefnd kærlega fyrir að hafa orðið við og sett inn í breytingartillögur meiri hlutans, er að talnagrunnur fjárlaga og frumvarps til þeirra skuli vera aðgengilegur á tölvutæku sniði og á opnum miðli og þau gögn skuli vera aðgengileg öllum til eftirvinnslu á tölvutækan máta. Mig langar að lesa aðeins úr nefndaráliti meiri hlutans um þetta, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur til að bætt verði málsgrein við 16. gr., um framsetningu frumvarps til fjárlaga, þar sem fram komi að talnagrunnur frumvarpsins skuli vera aðgengilegur á tölvutæku sniði og á opnum miðli og skuli þau gögn vera aðgengileg öllum almenningi til eftirvinnslu á tölvutækan máta. Með þessari viðbót er ætlunin að tölugrunnur fjárlaga hvers árs verði til dæmis auðveldlega samanburðarhæfur við fjárlög fyrri ára og ríkisreikning, en einnig að gögn fjárlaga nýtist betur til eftirvinnslu en áður, svo sem til skilvirkari greiningar og framsetningar.“

Það eru dæmi um þetta nú þegar sums staðar í stjórnsýslunni, þar á meðal hjá Fjársýslu ríkisins sem gefur út ríkisreikning á sniði sem hægt er að nýta með tölvutækum hætti. Ég fagna því mjög vegna þess að þótt þingmenn sjálfir og einstaklingar úti í samfélaginu geti ekki endilega nýtt sér tölvutæk gögn, vegna þess að þau eru jú hugsuð fyrir tölvur en ekki fyrir fólk til þess að lesa, kemur það samt sem áður almenningi öllum og þingmönnum mjög að gagni ef þetta er gefið út í tölvutæku formi sem allir geta notað. Þá þarf ekki nema einn og einn úti í samfélagi með einhverja tölvuþekkingu, vonandi ekki einu sinni mikla tölvuþekkingu, til þess að setja gögnin fram á nýjan máta, varpa ljósi á eitthvað sem annars er ekki auðvelt að koma auga á og það gagnast auðvitað almenningi öllum og það gagnast auðvitað þingmönnum líka.

Eitt skemmtilegasta dæmið sem ég veit um þetta er vefsetrið hvertferskatturinn.is en gögnin þar eru sett fram úr ríkisreikningi á máta sem hinn almenni borgari á mun auðveldara með að skilja og átta sig á og finnst einfaldlega miklu skemmtilegri.

Ég bind miklar vonir við það og fullyrði reyndar að þetta ákvæði muni gera mönnum slíkt kleift og það er mjög til bóta að mínu mati. Það er oft kvartað undan því að framsetning frumvarpsins sé þannig að jafnvel þingmenn eigi erfitt með að átta sig á því. Það er vitaskuld satt líka en ég legg áherslu á það að hér er átt við hrá gögn, tölugögnin sjálf, sem eru hugsuð til þess að nýta tölvutæknina til þess að greina og framsetja gögnin á einhvern góðan hátt.

Orðalagið felur í sér að átt er við opin gögn, opin snið sem allir geta notað, CSV, XML eða hvaðeina. Það skiptir svo sem ekki öllu máli nákvæmlega hvernig það er sett fram svo lengi sem sniðið er aðgengilegt öllum og allir geta nýtt sér þau gögn með sem bestum hætti.