145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[15:07]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar aðeins að blanda mér í þessa umræðu um opinber fjármál. Líkt og fram hefur komið í þessari umræðu held ég að hér sé ýmislegt lagt til sem sé bara mjög gott sem varðar það hvernig ramminn í kringum opinber fjármál er eða hvernig við viljum breyta honum og hafa hann. Ég tek þó undir þau varúðarsjónarmið sem hafa komið fram í ágætum ræðum hér í dag, þar á meðal hjá hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur og hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, sem reyndar fór mun betur og af meiri þekkingu í gegnum þessi mál en ég gæti nokkurn tímann gert. Mig langar að taka undir það sem fram kom í ræðum þeirra, kannski sérstaklega það sem varðar 7. gr. frumvarpsins, um að þar sé ekki ætlað nægilega mikið svigrúm við beitingu ríkisfjármálanna þegar kemur að hagstjórn, þá sérstaklega því sem lýtur að sveiflujöfnun, að þar séum við að sníða okkur of þröngan stakk. Ég tek undir að þessi skilyrði séu ekki nógu góð og get því ekki tekið undir 7. gr.

Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs er það sem fram hefur komið í ræðum hjá mörgum hv. þingmönnum þar sem þeir tala um nauðsyn þess að fara inn í agaðra reglusett umhverfi. Svo langt sem það nær er ég alveg sammála því. Ég er sammála því að við þurfum meiri aga í ríkisfjármálunum. Það sem mér finnst hins vegar vanta upp á er stærsta áskorun samtímans sem er hér sleppt, þ.e. að við ætlum að standa undir skuldbindingum hvað varðar sjálfbæra þróun á öllum sviðum. Mér finnst þetta stór galli á mikilvægu máli því að þetta er hið stóra mál samtímans, þ.e. hvernig við ætlum að sníða fjármál okkar og hagkerfi, hvernig við ætlum að reka samfélag okkar í þeim veruleika sem blasir við okkur á 21. öldinni, heim þar sem við verðum ef við ætlum að lifa af til framtíðar að draga úr losun á mengandi efnum. Við verðum að hugsa hvernig við ætlum að byggja atvinnustarfsemi okkar upp. Við Íslendingar sem og allar aðrar þjóðir erum að fara að senda fulltrúa til Parísar núna eftir nokkra daga þar sem ræða á loftslagsmálin og það hvernig þjóðir heimsins ætla að leggjast á eitt til að draga úr losun til þess að hiti á jörðinni hækki ekki og allt fari ekki bara í kaldakol eins og stefnir í nema við breytum því hreinlega hvernig við lifum. Þetta snýst um það.

Í mínum huga snýst þetta jafnframt um það að við getum ekki haldið áfram á þeirri vegferð sem var alla 19. og 20. öldina, þ.e. að bæta lífskjör fólks með því að auka alltaf við framleiðsluna. Við aukum bara hagvöxtinn og þar með munu allir á endanum græða. Þetta getum við ekki lengur. Þetta er ekki leiðin sem við getum farið á 21. öldinni.

Því miður virðist mér sem fólk sé aðeins í orði búið að læra þetta, þ.e. möntruna um að við þurfum að draga úr mengun og stuðla að sjálfbærni. Þetta er alls staðar sagt en þegar kemur að hinum raunverulegu aðgerðum sér þeirra ekki stað. Þær eru ekki skrifaðar inn í stefnumótunina og ekki inn í pólitíkina. Ég sakna þess að þær séu ekki skrifaðar betur inn í þetta frumvarp. Ég held að þetta sé okkur alveg lífsnauðsynlegt inn í framtíðina.

Mig langar því að taka undir það sem fram kemur í nefndaráliti frá minni hluta fjárlaganefndar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Sjálfbærni opinberra fjármála er eitt helsta markmið fjármálastefnu og fjármálaáætlunar skv. 4. og 5. gr. frumvarpsins. Í því á m.a. að felast að tryggt sé að hið opinbera geti ávallt staðið undir skuldbindingum sínum að uppfylltum öllum skilyrðum sjálfbærrar þróunar. Í skilgreiningu frumvarpsins á sjálfbærni er hins vegar einungis horft til efnahagslegra þátta en í alþjóðlegum skilgreiningum er einnig horft til félagslegra og umhverfislegra þátta og telur minni hlutinn að laga þurfi frumvarpið að þeirri alþjóðlega viðurkenndu skilgreiningu.“

Þetta er ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hér hljóðs, mig langar að taka undir þetta vegna þess að mér finnst þetta bara vera sú pólitík sem við verðum að tileinka okkur, líkt og ég sagði. Hér hefði verið svo kjörið lag að ná inn þessari heildarhugsun, ekki alltaf að hugsa um sjálfbærni, umhverfislega þætti eða félagslega þætti í einhverjum afmörkuðum kössum, heldur einmitt að ná því inn í stóru heildarhugsunina, þá sem birtist í frumvarpi til laga um opinber fjármál eða fjárlagafrumvarpi. Mér finnst þess vegna mjög miður að ekki hafi náðst samkomulag um að taka þetta inn í lögin.

Mig langar hins vegar að beina því til hv. þingmanna að þeir skoði hug sinn og velti því svolítið fyrir sér hvort þeir séu mér ekki sammála í því að þetta sé það sem við þurfum að gera. Þetta er það sem pólitíkin á 21. öld þarf að tileinka sér í hugsun ef okkur er einhver alvara með því að við ætlum að ná einhverjum breytingum, ef við ætlum að ná einhverjum árangri þegar kemur að loftslagsbreytingum eða hvort við ætlum bara að bruna áfram fram af bjargbrúninni eins og mér sýnist því miður við ætla að gera þó að við segjum kannski eitthvað annað á tyllidögum.