145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[15:16]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef fylgst vel með þessum umræðum í dag og hlustað á fjárveitingavaldið tala. Stundum hefur mér þótt talað af allt að því hroka um hvernig beri að útrýma lausatökum á fjármálum stofnana, hvernig við förum að því að innleiða aga o.s.frv. Mér verður hugsað til þess til hverra verið er að tala, þá væntanlega þeirra stofnana sem hafa iðulega farið fram úr fjárlögum, úr því sem skammtað hefur verið. Hvaða stofnanir eru það? Það er Landspítalinn til dæmis og sjúkrastofnanir í landinu, það er löggæslan, það er menntakerfið. Við vorum um daginn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að fjalla um málefni Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og þar fögnuðu menn því að Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri væri að komast inn undir skammtaðar fjárheimildir, en það fylgdi sögunni að hann væri að fjarlægjast þau markmið sem hann ætti að stefna að í rekstri og forsvarsmenn skólans sögðu að hann væri að fjarlægjast landbúnaðinn að vissu leyti því að hann gæti ekki risið undir þeim væntingum sem landbúnaðurinn gerði til hans.

Það kom líka margt annað á daginn, hvernig hlaðið hafði verið skyldum á þá stofnun, en inn fyrir fjárlagaheimildir varð hún að komast. Það leiðir allt saman hugann að því að það eru til fleiri lög en fjárlög. Það eru til dæmis til lög um réttindi sjúklinga. Það eru til lög um jafnræði með þegnum landsins hvað varðar þjónustu, velferðarþjónustu margvíslega. Það hefur ekkert verið minnst á þetta í dag. Ég hef ekki heyrt eitt aukatekið orð um það heldur þeim mun meira talað um hvernig eigi að aga ríkisstofnanir og hvernig þetta frumvarp sem er fyrir þinginu sé sérlega vel til þess fallið.

Þetta frumvarp fjallar þó fyrst og fremst um eitt, það áhugamál Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að setja í lög, þeim tókst að gera þetta í gegnum íhaldsmenn í Svíþjóð, enda hafa verið farnar hópferðir þangað með íslenska þingmenn til að láta þá sitja þar námskeið (Gripið fram í.) um öguð vinnubrögð, að bannað verði að taka skuldir umfram tiltekið hlutfall af landsframleiðslu. Við vorum minnt á það í dag að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði hafist handa í ráðgjöf sinni hér gagnvart sveitarfélögunum og hann vildi ganga mjög langt í þeim efnum. Hann vildi horfa til 100% þaks, þau mættu ekki taka skuldir umfram það. Það vill svo til að þá var innanríkisráðherra sem fór með þann málaflokk sem sagði að það væri allt of strangt og var farið var með þetta þak upp í 150%. Það var varað við því í þessum þingsal, bæði við prinsippinu og líka upphæðinni. Meðal annars minnist ég þess að hv. fyrrverandi þm. Lilja Mósesdóttir gerði það og við settum niður nefnd til að fara yfir málið. Fljótlega eftir að þessi lög voru sett þá kemur á daginn að tiltekin sveitarfélög sem vilja ráðast í að byggja félagslegar leiguíbúðir ráku sig upp undir þetta þak. Og hver er þá lausnin? Hvað er þá til bragðs að taka?

Það sem er þá til bragðs að taka er að snúa sér til markaðarins, að láta verktakana um hituna og ríkið komi síðan að. Þetta er meginhugsunin hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þeim sem eru svipað þenkjandi, þ.e. að setja ríki og sveitarfélögum skorður af þessu tagi til að auka umsvif og möguleika markaðarins til að komast þar inn á svið sem hið opinbera hefur sinnt áður. Það er síðan ákveðið að setja niður sérstakan eftirlitsaðila, utanaðkomandi eftirlitsaðila til að hafa umsjón með því að þetta sé gert samkvæmt bókstafnum og það er kveðið á um sérstakt fjármálaráð í 13. gr. þessa frumvarps. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fjármálaráð er sjálfstætt í störfum sínum og setur sér starfsreglur. Þeir sem skipaðir eru í fjármálaráð skulu vera óvilhallir og hafa þekkingu á opinberum fjármálum. Formaður fjármálaráðs skal hafa lokið framhaldsnámi á háskólastigi á fræðasviði sem lýtur að hlutverki ráðsins.“

Ég auglýsti eftir því við 1. umr. hvort við gætum fengið hugmynd um hvaða einstaklingur gæti verið á ferðinni hér. Hver er það sem á að hafa þetta eftirlitshlutverk með okkur, með fjárveitingavaldinu? Það er búið að bæta því núna inn í textann samkvæmt tillögu meiri hlutans að hann eigi að hafa háskólapróf. Í hverju? Dönsku? Guðfræði? Í hverju á hann að hafa háskólapróf? Óvilhallur og hafa þekkingu á opinberum fjármálum. Þessi aðili á að hafa eftirlit að sönnu með því að hér sé eitthvað sem kallað er sjálfbær, gagnsæ fjárlög. Hvað eru sjálfbær fjárlög? Hvað er það? (Gripið fram í.) Það var talað um það, ég er að tala fyrir mig hérna og ég er vinstri grænn. Ég er þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og ég er að lýsa sjónarmiðum sem eru rík innan þess flokks. Sjálfbær fjárlög. Það var talað um það hér í dag að ein kynslóð mætti ekki lifa á kostnað annarra. Hvað gerðum við? Hvað gerði mín kynslóð? Hvað gerði sú kynslóð sem á undan fór og tók iðulega mikil lán til að búa mér og minni kynslóð samfélag sem veitti góða menntun, góða velferðarþjónustu, góða heilbrigðisþjónustu og margvísleg önnur tækifæri? Það kostaði peninga og það kostaði lántökur.

Ég talaði um það og nefndi sem dæmi úr reynsluheimi mínum þegar ég gerðist formaður BSRB haustið 1988 og kom þar að mörg hundruð milljón króna skuldsetningu vegna uppbyggingar orlofsbyggða bandalagsins. Við gátum ekki á næstum árum gert annað en að halda við og greiða niður vextina. Sjálfbært, nei. Að sjálfsögðu var það ekki sjálfbært, ekki fyrir þá kynslóð, en þetta var mjög skynsamlegt og við nutum góðs af því. Það var skynsamlegt af forverum mínum á þeim vettvangi að ráðast í mikla og myndarlega uppbyggingu sem við nutum síðan öll góðs af. Við urðum svo að halda í við okkur næstu árin og kannski næsta áratug eða svo eða á annan áratug, en það var allt í góðu lagi. Þetta var skynsamlegt. Það á ekki að setja félagslegum aðilum og ekki heldur ríki og sveitarfélögum skorður af þessu tagi, það á ekki að gera það. Það þýðir ekki að ég vilji ekki leitast við að hafa hallalaus fjárlög. Það er allt annar handleggur.

Ég tók þátt í því á síðasta kjörtímabili að stefna að því marki og við náðum því. Það var ásetningur okkar og við höfum alla tíð, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, sýnt mikla ábyrgð þegar kemur að fjármálum ríkisins og það á líka við um sveitarfélögin, mikla ábyrgð og miklu meiri ábyrgð en aðstandendur þessa frumvarps og þar vísa ég bæði í Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn og ég ætla að leyfa mér að vísa líka í Samfylkinguna. Við höfum alla tíð sýnt ábyrgð og þótt ég tali með varnaðarorðum gagnvart lögbindingu lána af þessu tagi og skuldbindinga og skuldsetningar þá er ég alls ekki að tala fyrir óábyrgri fjármálastefnu, því fer fjarri, því fer mjög fjarri.

Síðan er það hitt sem er svona meginhugsun þarna á ferðinni sem hljómar óskaplega vel, ég veit það. Setjum okkur fyrst stefnu, síðan áætlun um hvernig eigi að hrinda þeirri stefnu í framkvæmd, fimm ár, þrjú ár eða hvernig það nú er. Og við eigum fyrst og fremst að fjalla um stefnumótun hér og við eigum að hafa yfirumsjón með áætlanagerð líka, sem sagt langtímamarkmiðum. Ákvarðanatakan er síðan í ríkum mæli, og mun ríkari mæli en nú er, færð inn í ráðuneytin. Þetta fengum við að heyra líka í framsögu hv. formanns fjárlaganefndar, að ákvarðanatakan um einstaka liði verði færð inn í ráðuneytin og þar eigi að samræma mikið og þar verði mikið sparað, sem veitir nú ekki af vegna þess að þetta mun kosta sitt.

Það var vísað til þess hvernig ætti að bera sig að. Ég man ekki hvort það er í 28., 29. og 30. gr., eitthvað þar um bil, sem fjallað er um það hvaða skuldbindingar fylgi því að gera breytingar á þessum áætlunum og því sem áður var tekið til og það er gríðarlegt áætlana- og pappírsfargan sem fylgir slíku, sem kostar síðan sitt. Við fáum það í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins hvað barnið kostar. Árlegur kostnaður er tæpur hálfur milljarður, sem þetta kemur til með að kosta. Það er stefnumörkun, áætlanagerð, stjórnun og eftirlit. Þar er fjórðungur úr milljarði. Það er reikningshald og margvísleg skýrslugerð, 96–120 milljónir. Svo er það hagstjórn og eftirlit, 36–48 milljónir, upplýsingakerfi á ársgrundvelli, 36–48 milljónir, áætlanakerfi, 12–48 milljónir. Síðan er það tímabundinn kostnaður, til eða frá hálfur milljarður. Það er náttúrlega tímabundið og fjárfesting til eins tíma en hyggilegra að horfa á hinar tölurnar. Væri nú ekki gott að fá eitthvað af þessum fjármunum í rekstur Landspítalans eða til að draga úr kostnaði sjúklinga við að leita sér heilbrigðisþjónustu? Ég hefði haldið það.

Það er gott að gera góðar áætlanir. Það er gott að setja sér markmið en ég er með miklar efasemdir um það sem hér er á ferðinni. Það er verið að reisa mikla píramída úr pappír og það eru þeir sem koma til með að kosta mikla peninga, enda er það alveg augljóst eins og fram kemur í þessu frumvarpi.

Ef við látum hugann reika til baka yfir fjárlagaumræðuna hér í þingi, hefur hún verið svo afleit? Hún hefur oft verið erfið og hún hefur oft verið tilfinningaþrungin og yfir hverju hefur hún verið tilfinningaþrungin? Hún hefur yfirleitt ekki verið mjög tilfinningaþrungin þegar við erum að tala um hinar stóru tölur, hversu marga milljarða við eigum að láta renna til heilbrigðisþjónustunnar eða menntakerfisins og þá skólastiganna. Það er ekki svo. Það er þegar veruleikinn birtist okkur í hinu smáa, í því sem á að taka héðan út úr umræðunni, sem umræðan fær tilfinningalegt innihald. Þegar við förum að ræða það til dæmis hvort eigi að úthýsa ungu fólki sem er komið yfir tiltekinn aldur, 26 ára, út úr framhaldsskólunum, þegar við rekum augun í það í fjárlagafrumvarpi að það stendur til að gera það þá æsist leikurinn.

Og við þekkjum það á síðasta kjörtímabili þegar við vorum að skera niður, sem var nauðsynlegt að gera, þegar starfsfólkið á tilteknum heilbrigðisstofnunum, einkum úti á landi, ég minnist þess í Reykjanesbæ, ég minnist þess á Sauðárkróki, á Húsavík, myndaði keðju hönd í hönd um sjúkrahúsið sitt. Það var vegna umræðu hér um veruleikann í lífi þess fólks. Það er þessi vinna öll sem nú er verið að færa inn í ráðuneytin. Ég skil vel að það séu fleiri en fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem kætast yfir hinum góða nemanda sínum. Það eru ráðuneytin að sjálfsögðu líka mörg. Þau fá þarna aukin verkefni og aukið vald inn til sín á kostnað þingsins og þingið er svo smátt í sér að í stað þess að reyna að hafa eftirlitsvaldið og umræðuna hjá sér þá er skipuð sérstök nefnd sem á að rækja þetta. Ég heyrði það líka við umræðuna hér í dag að menn sáu jafnvel fyrir sér að þetta fjármálaráð yrði víkkað út. (VigH: Nei.) Ekki af hálfu formanns fjárlaganefndar, það er rétt, ekki af hálfu hennar. En ég heyrði í umræðunni í dag að það var svo mikil hrifning af þessu ráði sem átti að taka völdin af þinginu og fylgjast með því að það væri alveg öruggt að við brytum ekki 7. gr. frumvarpsins um skuldsetningu ríkisins, því að það er náttúrlega meginmálið. Ég gleymdi að botna það áðan þegar ég fór að vísa í sjálfbærnina og agann sem þetta fjárlagaráð á að hafa eftirlit með að það er náttúrlega fyrst og fremst 7. gr. sem fjallar um heimilaðar lántökur ríkisins, að þær skuli ekki fara að jafnaði yfir 30% af vergri landsframleiðslu. Þetta er helmingi lægra hlutfall en gerist hjá Evrópusambandinu með sín Maastricht-skilyrði. Maastricht-skilyrðin snúa að verðbólgu, vöxtum, skuldsetningu og einhverjum þætti enn, en þar er skuldsetningin mun hærri en þetta. Ekki svo að skilja, og ég ítreka það eina ferðina enn, að ég sé að mæla með mikilli skuldsetningu ríkisins, ég er ekki að gera það. Ég er einfaldlega að segja að þeir tímar geta komið — og ekki aðeins að það steðji einhver sérstök vá að samfélaginu en þeir tímar geta komið að við teljum hyggilegt að ráðast í mikla skuldsetningu, t.d. vegna nýs sjúkrahúss. Þá verður alltaf freistingin hin að fara með þetta út á einkamarkað þar sem skuldirnar eru faldar og það er sá ljóti leikur sem hefur verið leikinn víða og er leikinn í Bretlandi. Verstir voru kratarnir undir stjórn Tonys Blairs, þeir voru sennilega verstir, meira að segja íhaldið var farið að hafa áhyggjur af því hve langt þau gengu en hún er nú að færast aftur í gamla gírinn, sú stjórn sem situr nú í Bretlandi. En við erum sem sagt að fara út í þá vegferð.

Ég verð að segja það til allra þeirra sem styðja þetta frumvarp og telja það afar gott og hefja mál sitt á því að mæra frumvarpið, hvað það sé ágætt, að þótt ekki væri út af neinu öðru en 7. gr. þá er ástæða til að berjast gegn þessu frumvarpi af lífi og sál. Ég mun greiða atkvæði gegn frumvarpinu, hverju einasta ákvæði þess, og þegar það kemur til endanlegrar atkvæðagreiðslu mun ég að sjálfsögðu segja nei.