145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[15:37]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég gerði hér áðan grein fyrir þeim efasemdum sem ég hefði um sveitarstjórnarlögin þrátt fyrir ábyrgð mína og aðkomu að þeim málum. Ég skýrði það með hvaða hætti ég hefði um þetta efasemdir.

Ég vakti jafnframt athygli á því að til væru margs konar lög í landinu, það væru ekki aðeins fjárlögin sem lytu að fjárreiðum ríkis og sveitarfélaga heldur væru margvísleg önnur lög sem Alþingi þarf að horfa til. Þá er ég að horfa á lög um réttindi sjúklinga, um jafnræði, um byggðarlög o.s.frv., sem við þurfum að horfa til. Þá er spurningin: Hvernig ramma myndum við okkur til umræðu um það? Ég var að leiða að því rök að þessi rammi væri ekki góður og réttur.

Ættum við að horfa upp á það að misvitrir stjórnmálamenn skuldsetji sín sveitarfélög eða ríkið án þess að við reynum að reisa rönd við? Ég held að ástæðan fyrir því að sveitarfélögin og ríkið er varfærnara en það var áður sé ekki þessi lög. Það endurspeglar breytt viðhorf í samfélaginu, meiri varfærni þegar kemur að skuldsetningu en áður var. Við höfum horft upp á hvernig fór hjá fyrirtækjum, bönkum og öðrum stofnunum sem skuldsettu sig upp í rjáfur og almennt er meiri varkárni ríkjandi í þjóðfélaginu, og ég hef talað fyrir henni og ég er fylgjandi henni.