145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[15:41]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins gagnvart sveitarstjórnarlögunum, þá var það svo, eftir gagnrýni sem meðal annars kom fram í þessum sal, að ég skipaði nefnd sem setti niður reglur um túlkun þessara laga og um sveigjanleika í túlkun þessara laga til að draga úr þessu höggi. Já, ég hefði viljað hafa lög sem væru ekki með þessum þökum. En þau eru þarna og það var reynt að gera það besta úr því.

Það voru nokkur sveitarfélög sem skuldsettu sig mjög mikið fyrir hrun. Við höfum heyrt í fréttum hvernig Reykjanesbæ reiddi af og fleiri sveitarfélögum. Ástæðan fyrir því að sveitarfélögin sýna varkárni núna er sú að þau eru brennd af því sem áður var og það á við um hina misvitru stjórnmálamenn, sem eru hluti af lýðræðinu; við eigum að treysta þeim og þurfum ekki að fá sérfræðinga til að lemja okkur svipugöng til að sýna skynsemi.

Varðandi leiguíbúðir sveitarfélaga þá er það margflókin umræða. Þau sveitarfélög sem hafa staðið sig vel í þeim efnum, og þar nefni ég Reykjavíkurborg, mættu standa sig miklu betur. Reykjavíkurborg rekur Félagsíbúðir sem er mjög gott fyrirtæki, mjög góð stofnun, og þarf að efla miklu meira. Það þarf að láta miklu meiri fjármuni ganga inn í félagslega íbúðakerfið í Reykjavík en ég nefni það engu að síður sem góða starfsemi. Það er líka nokkuð sem er góð fjárfesting til langs tíma að sveitarfélögin setji fjármuni í félagslegt íbúðarhúsnæði.