145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[16:53]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var ekkert voðalega mikið um efni málsins, en þó kannski aðeins í lokin. Hún var nokkuð undarleg, sérstaklega þegar hv. þingmaður fór yfir söguna um stjórn efnahagsmála. Hv. þingmaður veit eins og er að sem betur fer voru skuldir ríkisins greiddar niður fyrir bankahrunið. Og af því að hv. þingmaður vék að mínum flokki, þá man ég ekki eftir að hennar flokkur hafi nokkurn tíma stutt þá aðgerð að skuldir væru greiddar niður. Við hefðum ekki getað unnið okkur út úr þessu, eða í það minnsta ekki á þann hátt sem við gerðum, ef sú staða hefði verið uppi.

Hv. þingmaður sagði að nú væri búið að taka upp þann leiða sið hægri stjórna að lækka skatta þegar betur áraði, og fór síðan yfir það hvað skattar voru hækkaðir mikið í tíð síðustu ríkisstjórnar. Ég vildi spyrja hv. þingmann: Hvenær er rétti tíminn til að lækka skatta? Miðað við það sem hv. þingmaður sagði eigum við að hækka skatta þegar hart er í ári en við eigum ekki að lækka þá þegar betur árar. Hver er tímapunkturinn til að lækka skatta? Það væri ágætt að fá það fram.

Ég hef verið hér frá 2003 og hef fylgst mun lengur með stjórnmálum. Og af því að það er verið að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn — og að því er mér skildist Framsóknarflokkinn, ég tala nú ekki fyrir hann — fyrir að hafa lækkað skatta þá er hv. þingmaður í Samfylkingunni og ég man alveg eftir áherslumálum Samfylkingarinnar fyrir kosningarnar 2003 og 2007. Ég var í ríkisstjórn með Samfylkingunni, ég man ekki eftir einu einasta máli þar sem Samfylkingin var eitthvað á bremsunni varðandi útgjöld eða það sem hægt væri að segja að væri þensluhvetjandi. Getur hv. þingmaður nefnt einhver slík dæmi? Ef ég man rétt þá var Samfylkingin í keppni við Sjálfstæðisflokkinn, að eigin sögn, í loforðum um skattalækkanir.