145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef oft lokið lofsorði á hæstv. innanríkisráðherra fyrir það hvernig hún hefur aukið gagnsæi um reglur um vopnaburð lögreglu og birt reglugerð þar að lútandi. En ég verð að lýsa fullkominni óánægju með svörin sem hún gaf hér í gær við fyrirspurnum frá mér og hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni um fyrirhugaðar breytingar á vopnaburði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hún sagði að ekki væri verið að breyta neinum reglum en svaraði ekki þeirri spurningu með hvaða hætti verið er að breyta vopnaburði í lögreglubílum vítt og breitt um landið eða á höfuðborgarsvæðinu.

Ég endaði í þeirri undarlegu aðstöðu í gærkvöldi að vera að eltast við innanríkisráðherra á Facebook til að spyrja um þessi mál og þetta er fullkomlega óboðleg aðstaða. Vopnabúnaður lögreglu og aðgangur almennrar lögreglu að vopnum er grundvallarþáttur í því hvernig við tryggjum öryggi borgaranna og það er engin fylgni milli vopnaburðar lögreglu og lítilla glæpa heldur oft þvert á móti. Sú ákvörðun að gera vopn aðgengilegri fyrir almenna lögreglumenn er stórpólitískt mál og á heima á Alþingi Íslendinga og það er ófært að um það sé ekki umræða á Alþingi.

Ég vil þess vegna óska eftir sérstakri umræðu við hæstv. innanríkisráðherra strax í næstu viku og mér finnst eðlilegt að hér komi allar skýringar upp á borðið. Það er ekki eðlilegt að það sé Fréttablaðið sem upplýsi okkur um vopnaburð lögreglunnar með brotakenndum hætti og yfirlögregluþjónn tjái sig við Fréttablaðið í víðari mæli en ráðherra málaflokksins tjáir sig við Alþingi Íslendinga.

Það er ekkert gefið um það að við bætum öryggi okkar með því að auka aðgang lögreglumanna (Forseti hringir.) að vopnum og það er mikilvægt að hafa í huga að vopn í höndum löggæslu sem ekki er tryggilega um búið og skýrar reglur gilda um og (Forseti hringir.) almenn vitneskja er um með hvaða hætti er beitt geta orðið til að draga úr öryggi borgaranna en ekki til að auka það.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna