145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni um að það að horfa á þessa mynd, heimildarmynd um Flateyri, sem var tekin á um sex árum, er ömurlegt af því að þetta er í hnotskurn það sem hefur verið að gerast í sjávarplássum vítt og breitt um landið og menn, þingmenn, hafa látið óátalið og hafa ekki gert neinar alvörutilraunir til þess að mæta að neinu gagni. Það eru eilífir plástrar sem fólkinu í sjávarplássunum er boðið upp á. Þótt þingmenn viðurkenni vandann þá er eins og kjarkinn vanti vegna þess að það eru alltaf hinir stóru og sterku sem eru búnir að koma sér fyrir í kerfinu sem ráða ferðinni. Það er hagsmunagæslan sem ræður ferðinni og byggðirnar blæða. Ég tek undir að það ætti að vera skylduáhorf allra þingmanna að sjá þessa heimildarmynd um Flateyri sem sýnir hvernig það byggðarlag hefur farið niður á örfáum árum úr því að vera með fiskvinnslu og útgerð sem skapaði um 120 störf í það sem það er í dag, 15 störf sköpuð með aðstoð Byggðastofnunar. Þetta er sorglegt.

Ég er nýkomin af fundi þar sem hefur verið til umræðu hvernig megi skipta eða endurúthluta þeim litla hluta sem er ætlaður í þessar aðgerðir, 5,3% af úthlutuðum afla í kvótakerfinu. Það á eina ferðina enn að fara að hræra í þeirri naglasúpu sem ekkert er. Menn eru látnir bítast um það litla sem ekkert er, byggðirnar sem blæða fyrir afleiðingar kvótakerfisins. Ég segi bara hér og nú að þingmenn verða að fara að taka sig á og horfa á þann vanda sem er úti um (Forseti hringir.) allt land og á eftir að versna ef þeim er ekki bara nákvæmlega sama um byggðir (Forseti hringir.) landsins, ef það er bara ekki eitthvað annað sem er miklu merkilegra. Ég vil hvetja alla til þess að fara og sjá þessa mynd.


Efnisorð er vísa í ræðuna