145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Herra forseti. Umræða um kynferðisbrot, nauðganir, hópnauðganir, dómstóla, hlutverk lögreglu, hlutverk lögmanna, hlutverk heilbrigðiskerfisins, hvað er satt, hvað er ósatt, hvað er á gráu svæði, hvað er á kolsvörtu svæði, hefur varla farið fram hjá neinum. Efnt hefur verið til mótmæla, fólk hefur haft uppi stór orð í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Mörgum finnst viðbrögðin ofsafengin, öðrum finnst þau fullkomlega eðlileg og dómstól götunnar er oftast blandað inn í þetta.

Sjálfri finnst mér betra að við sem samfélag séum á þeim stað að við tölum um óþægilega hluti. Því það er nefnilega þannig með óþægilega hluti að þeir fara ekkert þó að maður horfi í hina áttina, þeir fara bara svona inn í hnakkann á manni og maður finnur fyrir þeim en sér þá illa. Það er mun farsælla að horfast beint í augu við vandann og fara í gegnum hann og breyta og bæta. Hvað kynferðisbrot varðar spyr ég mig hverju þurfi að breyta og hvað þurfi að bæta sem snýr að löggjafarvaldinu og framkvæmdarvaldinu.

Ég vil ekki sjá samfélagið fara aftur á þann stað þar sem ofbeldi, sama af hvaða toga það er, var þaggað niður. Í krafti þeirrar þöggunar fékk ofbeldið að grassera óáreitt. Ég geri þess vegna þá kröfu að við hér inni færumst í þá átt að við horfumst í augu við öll álitamál sem lokað samfélag þöggunar hefur alið af sér og skoðum vel og vandlega hvort það sé eitthvað í löggjöfinni eða framkvæmd hennar sem ýtir undir að ofbeldi fái að þrífast. Fyrir mér þarf þessi skoðun að vera nokkuð víð og ná yfir það hvernig við fræðum börnin okkar og allt yfir í það hvernig lögreglurannsóknum á kynferðisbrotum er háttað.

Ég kalla eftir því að settur verði á fót hópur fólks úr öllum flokkum til að vinna að þessu. Ég veit að það eru margir að hugsa það sama hér inni og ég veit að þessi hópur er til úti í samfélaginu og hann er til í að vinna með okkur. Það eru bæði sérfræðingar og þeir sem vinna að þessum málaflokki vítt og breitt. Leiði þessi vinna af sér tillögur að breytingum er það skylda okkar að breyta þar sem ofbeldi er samfélaginu dýrt í svo mörgum víddum.

Við höfum öll tekið að okkur það hlutverk að standa vörð um almannahag. Ég veit ekki um neitt sem er mikilvægara í því samhengi en að berjast fyrir opnu og ofbeldislausu samfélagi.


Efnisorð er vísa í ræðuna