145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Elín Hirst (S):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli þingheims á því sem kemur fram í Morgunblaðinu þar sem haft er eftir BBC að Amnesty International vari við því að í undirbúningi séu fjöldaaftökur í Sádí-Arabíu, að stefnt sé að því að taka tugi fanga af lífi á einum degi. Líklegt sé að 52 verði teknir af lífi fljótlega og meðal þess er fólk sem tekur þátt í mótmælum gegn stjórnvöldum í landinu. Ég hvet íslensk stjórnvöld, Amnesty á Íslandi og Íslendinga alla til að láta til sín taka vegna þessara fyrirhuguðu aftakna sem eru verri en orð fá lýst.

Ég vil lýsa því, eins og flestir aðrir hafa gert, hve miklar áhyggjur ég hef vegna ástandsins sem ríkir á þessu svæði í heiminum, í Miðausturlöndum. Frakklandsforseti og Rússlandsforseti áttu fund í gærkvöldi þar sem þeir ákváðu að vinna saman gegn ISIS í Sýrlandi þrátt fyrir það sem kom upp þegar tyrkneski herinn skaut niður rússneska herþotu en orð standa á móti orði í þeim málum.

Ástandið þarna er gríðarlega alvarlegt og því þurfa ríki að leggjast á eitt til að reyna að ná lendingu og lausn. Þar með fagna ég því að Frakkar og Rússar skuli þó alla vega vera að tala saman því að ástandið milli Rússlands og annarra Vesturlanda hefur ekki verið neitt sérlega gott upp á síðkastið.


Efnisorð er vísa í ræðuna