145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[11:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er með mikilli gleði sem ég geng nú til þessarar atkvæðagreiðslu. Nú er verið að leysa af hólmi um 20 ára gömul lög sem snúa að opinberum fjármálum. Þessi lagasetning hér markar tímamót í fjármálum hins opinbera. Hér er verið að setja rammalöggjöf um opinber fjármál, hvort sem þau snúa að ríki eða sveitarfélögum. Hér er nýmæli í lagasetningu að því leyti að nú verða til dæmis lífeyrissjóðsskuldbindingar ríkisins gerðar opinberar í fjárlögum hvers árs í fylgiskjali.

Ég þakka fjárlaganefnd fyrir afar góða vinnu síðustu tvö og hálft ár. Þetta er búið að vera ánægjulegt. Við höfum rætt okkur til niðurstöðu sem birtist hér í samkomulagi um þetta mál sem er mikilvægt því að eins og ég sagði í þingræðu í gær er hér um að ræða nokkurs konar stjórnarskrá opinberra fjármála.