145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[11:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna því mjög að við séum komin hingað til atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. í þessu stóra máli. Það er augljóst að við erum að takast á hendur mjög miklar áskoranir víða í stjórnkerfinu með samþykkt þessara laga. Þá er ég að horfa til ráðuneyta sem beinlínis fá aukinn mannskap og aukið fjármagn til að gera betur skil langtímaáætlunum í framtíðinni. Ég horfi líka til samninganna við sveitarfélögin sem verða einir og sér mjög stór áskorun. Framhald þessa máls ræðst mjög af því hvernig okkur tekst að eiga það samtal við sveitarfélögin og ná niðurstöðu um þau fjölmörgu álitamál sem takast þarf á við í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Ég vísa líka til þess hvernig umræðan verður í framtíðinni í þinginu með þessari breyttu framsetningu sem er mjög mikil breyting og er ætlað að hafa áhrif á það hvernig meginatriði verða skilin frá því sem ég leyfi mér að kalla aukaatriði í fjárlagafrumvarpinu. Það eru mjög stór (Forseti hringir.) skref sem við tökum með þessu. Það er við því að búast að eitthvað muni valda vandræðum í framkvæmd en við verðum að komast yfir þær hindranir og gera eftir atvikum í framtíðinni breytingar eftir því sem þörf krefur.