145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[11:44]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að þessi breytingartillaga sé óþörf, mér liggur við að segja í besta falli, en í versta falli er hún ákveðin vísun í útgjaldareglu sem sumir, þeir sem lengst hafa viljað ganga, hafa viljað skrúfa inn í þessa löggjöf í viðbót við allt hitt. Því höfum við verið og erum mjög andvíg. Við teljum að það geti verið varhugavert tæki, sérstaklega í höndum þeirra sem af hugmyndafræðilegum eða pólitískum ástæðum vilja einfaldlega halda umfangi samneyslunnar sem minnstu í samfélaginu. Við teljum því alls ekki til bóta að skjóta þessu þarna inn þótt vissulega væri einungis um markmiðssetningu að ræða og leggjum til að þessi viðbót komi ekki inn í greinina.