145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[11:46]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér er breytingartillaga frá minni hluta fjárlaganefndar um að skýra betur hugtakið sjálfbærni í lagatextanum sjálfum en í frumvarpinu stendur:

„Sjálfbærni sem felst í því að opinberar skuldbindingar séu viðráðanlegar til skemmri og lengri tíma og leggi ekki ósanngjarnar byrðar á komandi kynslóðir. “

Minni hlutinn leggur til að hér bætist við orðin „taki tillit til efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra þátta“ og er þá haldið til haga skilgreiningu á sjálfbærri þróun og sjálfbærum sjónarmiðum sem er alþjóðleg og notuð á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og alls staðar annars staðar þar sem hugtakið sjálfbærni kemur fyrir í alþjóðlegum textum sem við erum aðilar að. Ég tel að á þessum tímum, ekki síst þegar við ætlum að fara að gera okkur gildandi í loftslagsmálum, sé algjörlega viðeigandi að við nefnum þessar grunnstoðir sjálfbærni í lagatexta þeim sem hér er til umræðu.