145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[11:49]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. 7. gr. þessa frumvarps er sú grein sem okkur hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs finnst sú versta í þessu frumvarpi. Þess vegna leggjum við til breytingartillögu sem miðast við það að hagstjórnarmarkmiðin sem slík séu ekki lögbundin með þeim hætti sem meiri hluti þingsins leggur til. Við teljum að með því að lögbinda þessi markmið hindri það svigrúm ríkisstjórnar á hverjum tíma til að beita hagstjórninni til sveiflujöfnunar. Ef við skoðum íslenska hagsögu hefur heldur betur verið þörf á því. Við leggjum því fremur til breytingartillögu sem felst í því að markmiðin skuli sett fram af ríkisstjórn í upphafi hvers kjörtímabils eða í upphafi starfstíma ríkisstjórnar ef það verður á öðrum tíma. Við teljum mun eðlilegri pólitíska sýn að hagstjórnarmarkmið sem eru hápólitísk markmið á hverjum tíma séu sett af ríkisstjórn á hverjum tíma en ekki lögbundin með þessum hætti.