145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[11:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Fyrir augnabliki síðan samþykkti meiri hlutinn hér í salnum stífustu fjármálareglu sem ég þekki til að sé á byggðu bóli. Ætli veiti þá af að hafa útgönguleið sem hæstv. fjármálaráðherra vitnaði meðal annars til í atkvæðaskýringu áðan við 10. gr., að hafa hana þannig skilgreinda að ekki þurfi næstum því heimsendi til að menn komist út úr fjármálareglum 7. gr.? Þannig er þetta orðað hér. Það þarf þjóðarvá eða einhver stórkostleg áföll.

Við leggjum til að þetta sé öðruvísi skilgreint og vísað til þess að ef upp koma krefjandi félagslegar, efnahagslegar eða hagstjórnarlegar aðstæður geti ráðherra komið til þingsins með endurskoðaða fjármálaáætlun. Það er það sem þetta felur í sér. Þess vegna er mjög misráðið að hafa skilgreininguna í 10. gr. of þrönga í ljósi þess að það reyndist meirihlutavilji fyrir því að hafa fjármálareglurnar sjálfar svona stífar, skrúfurnar hertar í botn þar.

Ég hvet menn eindregið (Forseti hringir.) til að styðja þessa breytingartillögu.