145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[12:00]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Af því að mikið er talað um byggt ból langar mig að ítreka þá skoðun mína að ég held að á byggðu bóli sé varla til það land sem hefur orðið fyrir jafn sveiflukenndri og furðulegri efnahagsstjórn og hér. Ég held að það sé mikil ástæða til að við setjum okkur einhver mörk inn í framtíðina. Ef þetta þing getur skilað framtíðarþegnum þessa lands betri hagstjórn með þessu tel ég það af hinu góða og í 10. gr. segir einmitt „efnahagsáfalla, þjóðarvár eða annarra aðstæðna“ sem mér finnst nokkuð vítt og mega túlka á hverjum tíma eins og þannig ber við.

Ég tek undir með hæstv. fjármálaráðherra um að eftirlit þingsins með ríkisstjórn hvers tíma væri þá mikið og sú ríkisstjórn þyrfti að útskýra vel hvaða aðrar aðstæður það væru sem kölluðu á að víkja frá þessum reglum. Ég fagna þessu.