145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[12:04]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna mjög þessari breytingartillögu sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Innan fjögurra vikna frá framlagningu frumvarps til fjárlaga skal Byggðastofnun gefa fjárlaganefnd Alþingis umsögn um áhrif frumvarpsins á byggðaþróun í landinu.“

Það er nefnilega verið að vinna lög fyrir opinber fjármál fyrir meira en 101–110 Reykjavík. Það eru ýmis fleiri póstnúmer og ég fagna þessu vel.

Ég ætla líka að nota þessa ferð til að fagna því alveg sérstaklega sem kom fram í atkvæðaskýringu hv. formanns fjárlaganefndar sem sagði, með leyfi forseta:

„Við höfum rætt okkur til niðurstöðu …“

Þetta er alveg til fyrirmyndar og eru kannski ánægjulegustu tíðindin á þessum þingdegi.

Ég ætla að nota þetta tækifæri þótt ég sé hálfpartinn að brjóta reglur og beina því til hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, oddvita stjórnarflokkanna, að boða til fundar með öðrum formönnum stjórnmálaflokka til að ræða okkur til niðurstöðu um að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja á þessu ári miðað við gerða kjarasamninga (Forseti hringir.) og niðurstöðu Kjaradóms. [Kliður í þingsal.]