145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[12:30]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vissulega getur í frumvarpinu falist ákveðin skýring á óvissu um réttarstöðu og aðrar úrbætur á þessari löggjöf. Það mun hins vegar ekki leiða til stóraukins framboðs á úrræðum fyrir það unga fólk sem skortir húsnæði. Þess vegna verður ráðherrann að una því að húsnæðismálaráðherra sé spurður hvernig á því standi að eftir að verða þrjú ár í embætti séu frumvörp um úrlausnir fyrir unga fólkið á húsnæðismarkaði enn þá í ferli. Var ráðherrann ekki með þau á málaskrá á vorþingi? Var ekki ráðherrann með þau á málaskrá hér á hausti? Er ekki síðasti frestur til að skila inn þingmálum á þetta haustþing að renna út núna á mánudaginn? Er ekki föstudagur í dag? Getur ráðherrann ekki upplýst okkur um hvar 400 milljónirnar sem fólk á leigumarkaði átti að fá til að bæta upp hækkunina á matarskattinum eru staddar? Getum við ekki fengið að vita hvar húsnæðisbæturnar eru staddar? Er þetta bara allt saman enn þá í ferli? Á þetta líka að vera í ferli þegar komið er fram á vor? Eða veturinn eftir? Hversu lengi á fólk að bíða eftir að ráðherrann komi með frumvörp sem fela í sér fjármuni til úrræða á þessu sviði? Þó að réttarbætur séu ágætar verða ekki skapaðar viðráðanlegar lausnir fyrir ungt fólk í húsnæðismálum nema peningar fylgi með. Hvar eru frumvörp um fjármuni til að skapa húsnæðisvalkosti fyrir ungt fólk sem ekki hefur ráð á að fara inn á húsnæðismarkaðinn eins og hann er í dag?