145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[12:34]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu þessa frumvarps. Ég get tekið undir það með ráðherranum að það skiptir máli að tryggja réttarstöðu búseturéttarhafa eins og málin hafa æxlast á undanförnum árum. Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. ráðherra nokkurra spurninga.

Það er breyting á 3. gr. þar sem meðal annars er talað um að ráðherra geti heimilað frávik frá lágmarksfjölda stofnenda samkvæmt þessari málsgrein. Ég vil aðeins fá að heyra skoðun ráðherra á því hver þessi lágmarksfjöldi getur verið.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra varðandi þessa grein, þar sem talað er um að húsnæðissamvinnufélög skuli skrásett hjá ríkisskattstjóra, sem ég tel vera rétt. Af hverju er þá verið að taka fram að óskráð húsnæðissamvinnufélög geti ekki verið aðili að dómsmáli? Er bara ekki skylt, virðulegur ráðherra og hæstv. forseti, að húsnæðissamvinnufélög séu skrásett þannig að það þurfi ekki að standa neitt um óskrásett félög?

Ég fagna því að það skuli komið í þessi lög að gætt skuli kynjahlutfalls í stjórnum vegna þess að enn er ýmsu ábótavant í jafnréttismálum.

Á bls. 4 í 6. gr. frumvarpsins, í síðustu málsgrein, er rætt um stjórn félagsins, að henni sé óheimilt að framfylgja ákvörðunum félagsfundar eða annarra stjórnaraðila félagsins ef ákvarðanirnar eru ógildar vegna þess að þær brjóti í bága við lög eða samþykktir félagsins.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju er þessi mikla málsgrein hér inni um það sem óheimilt er að gera? Er eitthvað í farvatninu sem gefur tilefni til að binda í lög með svo sterkum orðum hvað ekki má?