145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[12:42]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið erum við hér að ræða frumvarp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eyglóar Harðardóttur um húsnæðissamvinnufélög. Ég hef átt sæti í verkefnastjórnum og er jafnframt í samráðshópi um húsnæðismál og áður en ég held áfram langar mig að byrja á því að þakka fyrir það góða samráð sem haft hefur verið við vinnslu frumvarpsins og þakka það traust sem maður hefur fengið við það. Ég vil einnig þakka því fólki í velferðarráðuneytinu sem hefur unnið hörðum höndum við að koma frumvarpinu saman og bregðast meðal annars við athugasemdum velferðarnefndar þegar nefndin fékk málið til efnislegrar meðferðar síðasta vetur.

Ég vil líka segja að hér er um að ræða eitt af fjórum húsnæðisfrumvörpum hæstv. ráðherra sem á að leggja fram á haustþingi. Afar mikilvægt er að þau frumvörp sem ókomin eru komi fram sem fyrst, ég veit að unnið er hörðum höndum að þeim, svo hægt sé að sjá þá gríðarlega jákvæðu heildarmynd sem frumvörpin bera með sér. Þau frumvörp sem von er á er frumvarp um endurskoðun á húsaleigulögum með það að markmiði að auka rétt þeirra sem eru á leigumarkaði, frumvarp um aukinn stuðning í formi húsnæðisbóta til þess að koma á jafnræði á milli þeirra sem eru á leigumarkaði og í eigin húsnæði, auk þess sem lagt verður fram frumvarp um stofnstyrki til uppbyggingar á félagslegum íbúðum til þess að auka framboð á íbúðum. Mikil vöntun er á þeim sem sýnir sig meðal annars í háu leiguverði.

Það er afar mikilvægt að horfa til allra þessara frumvarpa og sjá hvaða markmið þau fela í sér og hvernig þau eiga að bæta ástandið á leigumarkaði.

Við vinnslu velferðarnefndar á síðasta þingi beindist aðalgagnrýnin sem kom frá umsagnaraðilum ekki að þessu umrædda frumvarp heldur snerist hún um að frumvarpið mundi eitt og sér ekki bæta leigumarkaðinn í heild sinni. Þess vegna ítreka ég enn og aftur að það er afar mikilvægt að horfa á heildarmyndina. Þetta er samt sem áður gríðarlega mikilvægt frumvarp því það eru húsnæðissamvinnufélög hér á landi sem bíða eftir að frumvarpið verði að lögum til að geta haldið áfram sinni uppbyggingu. Í pípunum er að efla frekar ákveðin félög sem hér eru með það að markmiði að byggja fleiri íbúðir og auka þar með framboð á húsnæði.

Eins og ég hef komið inn á hér og kom fram hjá hæstv. ráðherra er frumvarpið lagt fram öðru sinni. Málið gekk til hv. velferðarnefndar í vor en því miður náðum við ekki að klára málið á tilsettum tíma þrátt fyrir mikla og góða samvinnu nefndarmanna.

Nú fær hv. nefnd málið að nýju og ég vænti þess að innan nefndarinnar muni ríkja samstaða um að klára málið, vinna það vel og efnislega svo að ný lög geti tekið gildi um húsnæðissamvinnufélög.

Meginmarkmið frumvarpsins er að auðvelda húsnæðissamvinnufélögum að starfa á Íslandi. Það er einmitt það sem við viljum, að allir geti búið við öryggi í húsnæðismálum og haft raunverulegt val um búsetuform. Við höfum séð meðal annars eftir hrun að margir geta kannski ekki keypt sér íbúð og sumir vilja ekki kaupa og aðrir vilja fara mitt á milli og eiga kost á húsnæðissamvinnufélagsforminu. Þess vegna er mjög mikilvægt að styrkja lögin um húsnæðissamvinnufélög til að við getum eflt þau og fólk hafi raunverulegt val um búsetuform og þetta verði einn af þeim kostum.

Hér er verið að leggja fram endurskoðaða löggjöf sem hefur það að markmiði að efla starfsemi húsnæðissamvinnufélaga. Markmiðið er að auka vernd búseturéttarhafa og skýra nánar réttarstöðu þeirra og annarra félagsmanna sem og húsnæðissamvinnufélaganna sjálfra. Það að auka vernd búseturéttarhafa er eitt og sér afar mikilvægt atriði. Því miður höfum við á undanförnum árum séð að ákveðin félög hafa staðið höllum fæti og einstaklingar hafa verið að kaupa sig inn í þau og hafa jafnvel ekki haft hugmynd um slæma rekstrarstöðu þeirra. Það er kannski ekki fyrr en allt er komið í kaldakol og staðan orðin mjög erfið sem íbúar og félagsmenn sem búið hafa í kerfinu í ákveðinn tíma hafa fengið að vita hvernig staðan er. Þess vegna er mjög mikilvægt sem kemur fram í þessu frumvarpi að auka íbúalýðræði til að sporna gegn þessu og auka upplýsingaskyldu til íbúanna.

Virðulegur forseti. Ég ætla í ræðu minni að fjalla um nokkur atriði frumvarpsins sem mér finnst vera til verulegra bóta fyrir húsnæðissamvinnufélög til að efla þau og gera þau áfram að raunverulegum valkosti sem búsetuform. Það fyrsta er að með frumvarpinu er lagt til að húsnæðissamvinnufélög geti útfært nánar í samþykktum sínum atriði er varða meðal annars fjármál, þar á meðal ákvæði er varða stofnsjóði, rekstrarsjóði, varasjóði og viðhaldssjóði. Þessi ákvæði eru í samþykktum húsnæðissamvinnufélaganna þannig að það eru íbúarnir sjálfir sem eru félagsmenn sem ákveða þessa þætti og hvert hlutverk þessara sjóða skuli vera. Í samþykktum er nánar skilgreint hvernig þeir eigi að vera fjármagnaðir. Í samþykktum félagsins sem íbúarnir sjálfir hafa áhrif á eru ákvæði um hvert hlutverk og kjör stjórnarinnar eigi að vera. Einnig á að koma fram í samþykktum félagsins hvernig ráðstafa skuli rekstrarafgangi eða bregðast við ef tap verður á rekstri félagsins.

Í samþykktum félaganna á einnig að koma fram hver eigi að taka ákvörðun um slit félagsins og hvernig skuli fara með ráðstöfun eigna þess verði það gjaldþrota. Sett eru ákvæði í samþykktir félagsins um þessa þætti. Þetta er mjög mikilvægt vegna þess að þegar fólk hefur keypt sér búseturétt í húsnæðissamvinnufélagi eru miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi. Í mörgum tilvikum liggur mikill hluti eigna eða jafnvel aleiga einstaklinga í þeirri útborgun. Því er afar mikilvægt að efla það með lögum að einstaklingarnir sjálfir sem eiga þennan rétt hafi áhrif á hvernig ákvarðanir eru teknar í félaginu og hvernig starfsemi þess skuli háttað.

Ef við horfum síðan á 6. gr. frumvarpsins þá kemur þar fram að halda skuli gerðabók um það sem gerist á fundum stjórnar og hún sé gerð aðgengileg félagsmönnum sé þess óskað. Ég tel mjög brýnt og afar jákvætt að þetta komi fram í lögunum til að auka gagnsæi fyrir félagsmenn um það sem gerist og þær ákvarðanir sem teknar eru í stjórn, m.a. vegna þeirra fjárhagslegu hagsmuna sem liggja að baki öllum þeim ákvörðunum og öllu því sem fram fer innan félagana.

Í 7. gr. frumvarpsins er fjallað um úttekt á fjárhag og varasjóði félagana. Þar kemur fram að húsnæðissamvinnufélög skuli á þriggja ára fresti eða oftar láta framkvæma úttekt á fjárhag, skuldbindingum og starfsemi félagana svo tryggt sé að félagið sé sjálfbært til lengri tíma. Jafnframt kemur þar fram að húsnæðissamvinnufélög skuli halda nauðsynlegan varasjóð til að mæta sveiflum í rekstri starfseminnar. Þetta er mjög gott ákvæði. Það er nauðsynlegt að reglulega fari fram úttekt á fjárhag húsnæðissamvinnufélagsins og það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að ef íbúarnir sjálfir samþykkja að þessi endurskoðun skuli fara fram oftar en á þriggja ára fresti og það kemur fram í samþykktum félagsins þá skuli það gert. Það er enn eitt merki um það aukna íbúalýðræði sem frumvarpið felur í sér.

Ég ætla næst að fara í 20. gr. frumvarpsins. Hún fjallar um lok búsetusamnings. Þegar við í hv. velferðarnefnd vorum með málið til afgreiðslu síðasta þingvetur voru þetta atriði sem við veltum mikið fyrir okkur og fengum margar spurningar um, meðal annars frá íbúum húsnæðissamvinnufélaga á landsbyggðinni eða þeirra félaga sem eru ekki á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þeir hræddust þessa grein þar sem verið er að sameina að mig minnir 20. og 25. gr. gildandi laga. En með því að skoða verulega vel hvað greinin felur í sér þá má sjá að það er verið að auka við þá valkosti eða möguleika sem íbúar hafa ef þeir vilja ljúka búsetusamningum eða selja rétt sinn.

Í fyrsta lagi þurfa íbúar að tilkynna húsnæðissamvinnufélagi að þeir hyggist selja búseturéttinn. Við það fer ákveðið ferli í gang samkvæmt frumvarpinu. Húsnæðissamvinnufélögin annast sölu réttarins og ákveðið uppgjör verður í samræmi við það ef íbúðin selst. Ef það gengur ekki er annar möguleiki í boði. Það er að framleigja íbúðina. Í frumvarpinu er ákvæði um að hægt sé að framleigja hana til allt að tólf mánaða í senn ef félagið samþykkir það. Ef ósk íbúa um leigu er hafnað þurfa að liggja fyrir því greinargóð rök.

Síðan er hægt að afsala sér búseturétti. Það er svipað og ákvæði svokallaðra lyklalaga ef þau væru fyrir hendi hér á landi og er því hægt að segja að með þessu standi íbúar húsnæðissamvinnufélaga jafnvel framar en einstaklingar sem eru með eigin eign á venjulegum markaði. Þetta er töluverð réttarbót. Ef allt annað brennur inni, maður getur ekki selt og ekki leigt, kannski er markaðsbrestur á svæðinu, þá er þessi möguleiki fyrir hendi. Auðvitað er alltaf erfitt að missa þann fjárhagslega rétt sem maður hefur sett inn í félagið, en þetta gengur fyrir sig eins og í ákvæðum lyklalaga ef þau væru fyrir hendi. Hérna eru settir upp þrír möguleikar um það hvernig hægt sé að ganga út úr félagi sem þessu ef einhverjar ástæður eru fyrir því að fólk vilji ekki vera lengur í félaginu.

Ég verð að fagna því sem kemur einnig fram í 20. gr. Ef íbúi missir íbúð sína á nauðungarsölu, þau sorglegu atvik geta orðið að fólk missi íbúð því það ræður ekki við afborganir eða vegna annarra þátta, þá er verið að færa rétt þessara einstaklinga til samræmis við það sem er í dag um eiganda íbúðarhúsnæðis sem selt er nauðungarsölu. Til dæmis er hægt að leigja íbúðina áfram í allt að tólf mánuði frá því að nauðungarsala fer fram. Tel ég það verulega til bóta.

Í meðförum nefndarinnar munum við skoða ýmsa þætti í frumvarpinu, þar á meðal það sem ráðherrann talaði um áðan varðandi lágmarksfjöldann og fleira. Þar kemur meðal annars inn landsbyggðarvinkillinn á málið. Við munum kanna hvort hægt sé að skoða það í meðförum nefndarinnar.

Ég vil að lokum þakka fyrir þetta greinargóða frumvarp og þá miklu vinnu og mikla samráð sem var haft við gerð þess.