145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[13:44]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Maður hefði nú frekar átt von á nokkurn veginn fullum þingsal og mikilli þátttöku í umræðunni þegar sá dagur rynni loksins upp að frumvarp um húsnæðismál kæmi frá hæstv. húsnæðismálaráðherra, sem eru talsverð tímamót því að eftir því hefur verið beðið eins og kunnugt er. Hér er að vísu aðeins á ferðinni endurflutningur á tiltölulega tæknilegu frumvarpi um húsnæðissamvinnufélög og búseturétt, sem er góðra gjalda vert sem slíkt en boðar auðvitað engin tímamót á nokkurn hátt í glímunni við ástandið á fasteignamarkaði eða í húsnæðismálum sem er óskaplegt eins og vikið var að í síðustu ræðu. Það er ekki hægt að kalla það neitt annað en ófremdarástand. Það er ófremdarástand á stórum svæðum á Íslandi. Ástandið er ekki bara bundið við höfuðborgarsvæðið þó að það sé mest í umræðunni. Það er líka ófremdarástand á öðrum forsendum í húsnæðismálum víða á landsbyggðinni. Það vantar víða húsnæði en enginn treystir sér til að byggja. Þetta ástand stendur þróun og framvindu í fjölmörgum byggðarlögum fyrir þrifum.

Í einhverjum mæli er ástandið á fasteignamarkaðnum hér farið að leiða til þess að fólk flytur beinlínis búferlum innan lands til að komast í ódýrara húsnæði eða húsnæði yfir höfuð. Annars vegar má sjá þessa þróun í nágrannabyggðum Reykjavíkur eða höfuðborgarsvæðisins í einhverjum mæli. Menn aka til og frá vinnu frá Selfossi eða Akranesi eða hvaðan það er og jafnvel eru dæmi um að fólk flytji hreinlega landshlutanna á milli vegna þess að kostnaðurinn við að koma sér í skikkanlegt húsnæði hér er óviðráðanlegur, t.d. fyrir barnmargar fjölskyldur. Ég veit dæmi um fólk sem hefur flutt héðan af suðvesturhorninu norður á Akureyri, austur á land og á fleiri staði. Það flytur gjarnan á svæði þar sem fasteignaverð er mun lægra en þar er skortur á húsnæði engu að síður. Staðan er sú að að frátöldum byggðunum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og Akureyri þá hafa nýbyggingar á íbúðarhúsnæði verið hverfandi á öðrum svæðum landsins. Menn lifa ekki síst á því sem var byggt annars vegar á níunda áratugnum, þegar einstaklingar byggðu á landsbyggðinni í stórum stíl, og síðan á því húsnæði sem bættist við í gegnum félagslega kerfið. Það geta menn ekki gert endalaust.

Ég minni nú á þetta hér því að mér finnst allt í lagi að menn taki aðeins umferð á húsnæðismálunum og stöðu þeirra almennt. Það sem til þarf er auðvitað svo miklu meira en einhverjar tæknilegar lagfæringar á lögum um húsnæðissamvinnufélög. Í grófum dráttum og einfaldað má segja að það vanti einar 3.500–5.000 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu, að uppistöðu til litlar íbúðir á viðráðanlegum kjörum. Síðan þarf að byggja árlega fyrir hvern nýjan árgang til að eitthvert jafnvægi komist hér á markaðinn. Það er ekki til staðar í dag. Út á þetta gera síðan aðilar sem eru að kaupa íbúðir vegna þess að leiguverðið er svo himinhátt og ráðstafa þeim ýmist í ferðaþjónustu eða til útleigu.

Sá sem hér talar er og hefur lengi verið mikill áhugamaður um húsnæðissamvinnufélög og búseturéttarfyrirkomulagið. Ég tók þátt í því á sínum tíma og gerðist félagsmaður þegar fyrsta félagið af því tagi var stofnað hér á níunda áratugnum og veit ekki betur en að ég hafi skilvíslega greitt mín félagsgjöld í það alla tíð síðan þó að ég hafi ekki nýtt mér það úrræði í húsnæðismálum vegna aðstæðna. Þá tók félagshyggju- og samvinnufólk sig saman og vildi reyna að koma á slíku formi hér sem valkosti í húsnæðismálum. Níundi áratugurinn var heldur betur sviptingasamur í þeim efnum, samanber misgengið illræmda sem varð milli launa og verðlags þegar verðtrygging launa var tekin úr sambandi en ekki á lánunum og misgengið illræmda varð til á árunum eftir 1983 og Sigtúnshópurinn varð til og allt það. Þá bundu menn og binda margir enn miklar vonir við, a.m.k. að hluta til, að lausn mála gæti verið fólgin í öflugum húsnæðissamvinnufélögum og því fyrirkomulagi að menn tryggðu sér búseturétt með því að leggja einhverja fjárhæð af mörkum og tryggðu þannig stöðu sína og greiddu síðan í reynd leigu að öðru leyti. Það er sjálfsagt mál að fara yfir löggjöf um þetta og laga hana. Í fljótu bragði virðist mér ýmislegt sem hér er lagt til vera skynsamlegt. Það er ástæða til að árétta að í því eru ekki fólgin nein tímamót. Þetta er ekki viðbótarúrræði eða úrlausn mála gagnvart því ástandi á fasteignamarkaði sem við stöndum frammi fyrir, aldeilis ekki.

Ef aðeins er vikið að nokkrum efnisatriðum frumvarpsins þá finnst mér mjög eðlilegt að kveða á um að ekki sé heimilt að greiða fé út úr þessum félögum í formi arðs eða slíkra greiðslna enda eru þetta samvinnufélög og menn leggja saman kraftana í þágu góðs málefnis með því að vera í slíku félagi en ekki til að hafa af því persónulegan hagnað. Varðandi kaupskylduna þá hljómar það að mörgu leyti óskynsamlegt, þ.e. að það geti verið mjög erfitt fyrir félög að vera með hana innbyggða. Þá þarf auðvitað að leggja grunn að því með einhverjum ráðstöfunum sem gera það tryggt að félögin ráði við það og það verði ekki á kostnað annarra félagsmanna eða þeirra sem eftir sitja ef flótti brestur á eða eitthvað í þeim dúr. Það þarf fyrst og fremst að verja félögin fyrir því ef aðstæður á markaði, breyttur tíðarandi eða eitthvað annað leiðir til þess að það verður enginn í boði til að kaupa búseturétt af þeim sem vilja losna og fara, eru að flytja búferlum eða annað í þeim dúr. Það er erfitt að tryggja slíkt. Auðvitað mætti hugsa sér að einhvers konar bankatryggingar væru þá lagðar til grundvallar en það yrði væntanlega alltaf kostnaðarsamt. Slíka áhættu mundi enginn taka að sér að bera nema fá eitthvað fyrir sinn snúð á móti. Kannski væri einfaldasta leiðin að ekki yrði heimilt að kveða á um kaupskyldu. Hún hefur ýmsa kosti og í sjálfu sér er viss eftirsjá í því ef ekki er hægt að sjá fyrir sér að félögin geti byggst þannig upp og verið það öflug og trygg að kaupmöguleiki eða kaupskylda sé til staðar. Kaupréttur verður auðvitað alltaf að vera en spurningin er um skylduna.

Þá að því sem snýr að upplýsingagjöf og skyldum félaganna til að framkvæmda reglulega úttektir á fjárhag sínum og skuldbindingum. Það er mjög mikilvægt og sjálfsagt mál að kveða afdráttarlaust á um það og sömuleiðis að upplýsa síðan félagsmenn og upplýsa vel þá sem leita eftir því að kaupa sér búseturétt í svona félagi. Þar hefur verið misbrestur á, ekki endilega hjá húsnæðissamvinnufélögunum en sannarlega sums staðar annars staðar. Úr því þarf að bæta.

Ég vil nefna að í velferðarnefnd hefur verið til skoðunar staða þeirra sem kaupa sér búseturétt eða íbúðarrétt í annars konar formi þar sem um er að ræða félagasamtök eða sjálfseignarstofnanir eða félög í eigu slíkra aðila sem hafa boðið upp á þann valkost að menn reiði fram allháar fjárhæðir og kaupi sér þar með rétt til búsetu í íbúðum. Það er alveg hægt að nefna hér af hvaða ástæðu menn hafa verið með þetta í höndunum undanfarin missiri, það er til dæmis staðan á Eir og sams konar fyrirkomulag er í boði á Grund, Hrafnistu og víðar. Í ljós kemur að þarna eru í raun og veru um að ræða eins konar íbúðarrétt eða búseturétt sem menn tryggja sér í félögum af þessu tagi, sem er meira og minna í lagalegu tómarúmi og fellur ekki undir lögin sem hér er verið að breyta með húsnæðissamvinnufélög og lögin um sjálfseignarstofnanir sem starfa samkvæmt samþykktum veita takmarkað aðhald í þessum efnum. Ég vil vekja athygli á þessu því að þetta er náskylt því sem við erum efnislega að fjalla um nú, þ.e. hvernig við tryggjum stöðu þeirra sem reiða fram fjármuni til að kaupa sér búseturétt þó í húsnæðissamvinnufélagi sé og svo í þeim tilvikum þar sem fólk gerir það hjá öðrum aðilum. Niðurstaðan hefur sums staðar orðið skelfileg eins og menn þekkja.

Það verða með einhverjum hætti að koma til sambærileg ákvæði, hvar sem um þau á að búa í lögum, hvort það verður í húsaleigulögum eða í lögum um þessar stofnanir, neytendalöggjöf eða hvar það á að vera. Það þarf að tryggja upplýsingagjöf, eðlilega neytendavernd og tryggja það sem hér er verið að fjalla um, að þeir sem taka við fjármunum frá fólki í þessu skyni hafi ríkar skyldur til þess að upplýsa um fjárhag sinn, gera úttektir á honum og að þeir verði undir eftirliti þannig að reynt sé að afstýra slysum í þeim efnum.

Nefndin er með þetta til skoðunar en mér finnst ágætt að ráðuneytið viti af því líka að þarna er jaðar eða geiri sem er í raun og veru í ákveðnu lagalegu tómarúmi. Auðvitað er ekki meiningin að taka af mönnum samningsfrelsið til að semja á frjálsum forsendum sín í milli um viðskipti á grundvelli samningslaga eða hvernig sem það nú er. Reynslan kennir okkur að þegar um er að ræða jafnvel ævisparnað fólks og það ráðstafar honum í húsnæði þá verður að vera traust umgjörð utan um slíkt. Annars gætu orðið þvílíkar uppákomur að það hálfa væri nóg. Það þarf líka að leggja vinnu í að skoða stöðu um sumt sambærilegra aðila þó að ekki sé um húsnæðissamvinnuform eða búseturéttarform að ræða.

Frú forseti. Af því að ég á kost á að fjalla um þetta mál í velferðarnefnd sé ég ekki ástæðu til að fara að lengja hér umræður um það. Þetta er að miklu leyti tæknilegt frumvarp en mikilvægt um leið. Allmargar umsagnir munu hafa borist um frumvarpið þegar það var lagt fram í fyrra og fór út til umsagnar án þess að meira væri að gert. Í inngangi greinargerðar stendur að tekið hafi verið tillit til þeirra athugasemda sem velferðarnefnd bárust eftir því sem frekast var unnt, en ekki nánar tilgreint í hvaða efnum frumvarpinu var breytt frá fyrri útgáfu þess í áttina að slíkum athugasemdum. Þær upplýsingar getum við að sjálfsögðu fengið í nefndarstarfinu. Ég hefði talið ágætt að það hefði verið rakið í greinargerðinni öðrum þá til þægindaauka.

Ég læt þá máli mínu lokið um þetta, frú forseti.