145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[14:38]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Eins og ég segi og hún segir líka er þetta mikilvægt frumvarp sem skilaboð Alþingis til þeirra, eins og hún lýsir því, sem eru með mikil áform um byggingu á leiguhúsnæði, alveg sama hvort það heitir Búseti hsf., Búseti á Norðurlandi hsf. eða Búmenn hsf. eins og fjallað er um í lagafrumvarpinu. Ég segi fyrir mitt leyti: Já, vonandi tekst í velferðarnefnd að vinna þetta hratt og vel. Það liggur á að samþykkja frumvarpið. Ég get ekki ímyndað mér að mikill ágreiningur sé um það.

En ágreiningurinn er um þennan ofboðslega tíma sem tekur að koma með stóru frumvörpin. Vissulega eru einhverjar lagfæringar settar fram við 2. umr. fjárlaga. En stóru frumvörpin, ég sagði sjö en hæstv. ráðherra segir að fimm hafi verið á þingmálaskrá, þá eru fjögur eftir. Ég held að þetta frumvarp sé svona það auðveldasta fyrir hæstv. ráðherra að koma í gegnum ríkisstjórn. Þess vegna kemur það fyrst. Því spyr ég um hin frumvörpin. Við höfum heyrt að í þeim, eins og með stofnstyrki og fleira, verði fjárhagsleg útgjöld hvað það varðar. Þá er spurningin: Er það stopp í ríkisstjórn hjá hæstv. ráðherra? Hefur hún ekki almennilegan stuðning í ríkisstjórn, hjá fjármálaráðherra, forsætisráðherra og öðrum, að koma með þau frumvörp? Það liggur á.

Hæstv. ráðherra talaði um að þetta hefði tekið langan tíma. Já, mikil ósköp. Það er gagnrýnin sem maður verður því miður að setja fram. Maður vill helst vera jákvæður gagnvart öllum frumvörpum sem eiga að bæta hag almennings gagnvart húsnæðismálum í landinu sem er ein stór krísa eins og við vitum. Ég mun gera það að umtalsefni í ræðu minni á eftir um leið og þessu andsvari lýkur vegna tíma.