145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

höfundalög.

362. mál
[14:55]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þingmál nr. 362 felur í sér innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 77/2011, dagsett 27. september 2011, um breytingu á tilskipun 116/2006, um verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda sem tekin var upp í XVII. viðauka, þeim sem stýra hugverkarétti, við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2013 frá 3. maí 2013 sem tók gildi 1. ágúst 2014.

Alþingi hefur áður fjallað um innleiðingu tilskipunarinnar í íslenskan rétt, samanber umsögn allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í fundargerð, dags. 15. október 2012. Þá var fjallað um tilskipunina í athugasemdum við tillögu þá sem varð þingsályktun Alþingis 3/143, frá 4. desember 2013, 77. þingmál á 143. löggjafarþingi, samanber tillögu til þingsályktunar á þingskjali 77. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar bar að innleiða hana í aðildarríkjum Evrópusambandsins eigi síðar en 1. nóvember 2013, en EES/EFTA-ríkjunum var veittur frestur til 1. ágúst 2014 til að innleiða tilskipunina.

Íslenskum stjórnvöldum barst formleg tilkynning frá Eftirlitsstofnun EFTA um ákvörðun, dagsett 12. nóvember 2014, þar sem byrjað er tafamál vegna dráttar á innleiðingu tilskipunarinnar í íslenskan rétt. Stofnunin gaf út rökstutt álit um samningsbrot Íslands gagnvart ákvæðum EES-samningsins 8. apríl 2015 fyrir að láta hjá líða að innleiða tilskipunina í íslenskan rétt. Eftirlitsstofnun EFTA tilkynnti 4. nóvember 2015 þá ákvörðun að Íslandi yrði stefnt fyrir EFTA-dómstólinn vegna fyrrgreinds brots á EES-samningnum.

Í frumvarpinu er lagt til að tilskipunin verði innleidd með breytingu á 43. gr., 45. gr., 46. gr. og 63. gr. gildandi höfundalaga. Auk þess er lagt til að við lögin verði bætt þremur nýjum greinum sem verði a-liður 47. gr. til c-liðar 47. gr.

Virðulegi forseti. Þær breytingar sem lagðar eru til á höfundalögunum í frumvarpi þessu taka til eftirfarandi atriða:

1. Lagt er til að útreikningur á verndartíma tónverka með texta verði samræmdur þannig að verndartími tónlistar og söngtexta verði 70 ár frá dánarári þess höfundar sem lengur lifir, hvort sem það er tónskáld eða textahöfundur.

2. Í frumvarpinu felst tillaga um lengdan verndartíma á hljóðritum á eftirfarandi hátt:

a. Að verndartími fyrir rétt flytjenda til hljóðrita af listflutningi þeirra sem hafa verið gefin út eða gerð aðgengileg almenningi lengist úr 50 árum í 70 ár, reiknað frá útgáfudegi eða þegar hljóðrit var gert aðgengilegt almenningi.

b. Sama breyting er lögð til á rétti framleiðenda hljóðrita til hljóðrita sem hafa verið gefin út eða gerð aðgengileg almenningi.

3. Framlengingu verndartíma hljóðrita fylgir nýtt ákvæði um rétt listflytjenda til árlegrar viðbótarþóknunar á framlengdum verndartíma. Viðbótarþóknunin skal samsvara 20% af þeim tekjum sem framleiðandi hljóðrits hefur af því að á framlengdum verndartíma.

4. Frumvarpið felur í sér nýtt ákvæði sem heimilar listflytjanda að segja upp samningi um framsal réttinda ef umsamin réttindi eru ekki nýtt í nægilegum mæli.

5. Loks er í frumvarpinu sérstakt ákvæði um gildistöku sem segir til um í hvaða mæli hinum breyttu reglum verður beitt um gildandi réttindi og framsalssamninga.

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem ég mæli hér fyrir felur í sér mikilvæga réttarbót fyrir flytjendur sem fá nú 20 ára framlengingu á þann hluta ævitekna sem kemur frá hagnýtingu hljóðrita. Í greinargerð með frumvarpinu er farið ítarlega yfir hverja efnisgrein frumvarpsins fyrir sig og möguleg álitaefni umfram það sem ég hef tæpt á í ræðu minni. Rétt er að vekja athygli á að Eftirlitsstofnun EFTA fylgist grannt með framgangi þessa frumvarps á Alþingi, enda er frestur til innleiðingar tilskipunarinnar liðinn og hefur málinu þegar verið vísað til EFTA-dómstólsins.

Að því mæltu legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr., virðulegi forseti, vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.