145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

styrkir vegna sýninga á kvikmyndum á íslensku í kvikmyndahúsum hér á landi.

369. mál
[15:00]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér verður mælt fyrir frumvarpi til laga um styrki vegna sýninga á kvikmyndum á íslensku í kvikmyndahúsum hér á landi, svokallaða miðastyrki.

Frumvarpið er samið í mennta- og menningarmálaráðuneytinu í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið. Tilefni og tilgangur frumvarpsins er að efna ákvæði samkomulags um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu árin 2012–2015.

Með frumvarpinu er lagt til að greiddir verði út styrkir til kvikmyndaframleiðenda vegna sýninga á kvikmyndum á íslenskri tungu til að vega upp á móti áhrifum af álagningu virðisaukaskatts á aðgöngumiða kvikmyndasýninga á íslenskar kvikmyndir sem kom til framkvæmda árið 2013.

Þann 8. desember 2011 gerðu mennta- og menningarmálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Félag kvikmyndagerðarmanna og Samtök kvikmyndaleikstjóra með sér samkomulag um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu árin 2012–2015. Samkomulagið fól meðal annars í sér að afnema skyldi undanþágu frá virðisaukaskatti af sölu aðgöngumiða á sýningum á íslenskum kvikmyndum og að í staðinn yrðu teknir upp miðastyrkir. Styrkir til kvikmyndagerðar teljast ríkisaðstoð í skilningi 2. kafla EES-samningsins og við framkvæmd ríkisaðstoðar ber EFTA-ríkjunum að gæta að því að mismuna ekki umsækjendum með tilliti til þjóðernis þeirra.

Við undirbúning að reglum um miðastyrki og eftir samskipti íslenskra stjórnvalda við ESA var ljóst að sökum skuldbindinga Íslands samkvæmt EES-samningnum var ekki kostur að uppfylla samkomulagið samkvæmt innihaldi og greiða miðastyrki sem miðuðust eingöngu við íslenskar kvikmyndir, þ.e. eingöngu myndir framleiddar af íslenskum aðilum. Eftir bréfaskipti við ESA kom í ljós að stofnunin hafði hug á að taka til athugunar allt styrkjakerfi Kvikmyndasjóðs og leggja mat á hvort breytingar sem gerðar hafa verið á kerfinu frá árinu 1994 hafi falið í sér tilkynningarskyldar breytingar á aðstoðarkerfi.

ESA samþykkti þann 26. mars 2014 nýjar leiðbeiningarreglur um ríkisaðstoð til kvikmynda og annarra hljóð- og myndmiðlaverka. Við það tilefni beindi stofnunin þeim tilmælum til EFTA-ríkjanna að aðlaga aðstoðarkerfi sín að nýjum reglum fyrir 18. september 2016. Kvikmyndalög og styrkjakerfi Kvikmyndasjóðs eru nú til skoðunar hjá kvikmyndaráði, m.a. með það fyrir augum að aðlaga kerfið að reglum um ríkisaðstoð fyrir þann frest.

Vegna yfirstandandi endurskoðunar á kvikmyndalögum, þar sem framtíðarfyrirkomulag miðastyrkja verður ákveðið, þykir rétt að efna samkomulagið með því að kveða á um, í sérstökum lögum, tímabundna sýningarstyrki sem miða að því að brúa bilið þar til ný kvikmyndalög taka gildi.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.