145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur og verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

371. mál
[15:31]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra lýsi sig opinn fyrir því að skoða þá leið til dæmis að þetta verði styrkt mögulega í gegnum það að sameinast í skilningnum, færast á sama stað eða fara saman við starfsemi annarra aðila sem þarna er til að dreifa, þannig að til verði öflugri miðstöð, og með því umhverfi sem þar með tekst að skapa. Menn hafa verið að reyna að gera það víða um land. Til dæmis má nefna Nýheima og Höfn í Hornafirði þar sem menn hafa fært undir sama þak margs konar starfsemi sem býr til allt annað starfsumhverfi, annað vinnuumhverfi, annars konar samfélag, í staðinn fyrir einyrkjastörf tvist og bast.

Það væri áhugavert að skoða þá leið og ég veit að til þess stendur hugur heimamanna.

Samstarf við aðra aðila, þar á meðal á grunni þjónustusamninga sem lítil stofnun eins og RAMÝ gæti gert um ýmsa þjónustu, er augljóslega vel fær kostur. Ég sé ekki að það sé til dæmis neitt því til fyrirstöðu að RAMÝ gerði þjónustusamning við náttúrustofu á Norðausturlandi og þægi þaðan tiltekna þjónustu þó að náttúrustofurnar séu reknar á ábyrgð sveitarfélaganna, að vísu með umtalsverðum fjárstuðningi frá ríkinu á móti sveitarfélögunum. Það er augljóst að sameining mundi ekki ganga upp vegna þess að þar er um tvo ábyrgðaraðila að ræða, en samstarf, jafnvel samningsbundið samstarf, gæti mjög auðveldlega gert það.

Þó að RAMÝ sé fáliðuð, og það þekkjum við vel, er hún samt hattur yfir margs konar rannsóknarverkefni á svæðinu sem fjölmargir koma að, vísindamenn frá útlöndum, háskólar og margir fleiri. Það hefur sína kosti að halda utan um það og það er vilji heimamanna að það sé gert þarna heima fyrir. Rannsóknir stofnunarinnar sjálfrar (Forseti hringir.) er einfaldlega ómögulegt að vinna öðruvísi en í góðu samstarfi við landeigendur og heimamenn og bændur (Forseti hringir.) og þá sem nytja náttúruna. Því samkomulagi þar um má ekki spilla.