145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

skattar og gjöld.

373. mál
[15:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld. Að mestu leyti er um að ræða úrbætur og breytingar á ákvæðum um framkvæmd umræddra laga og munu ekki hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs samanlagt, verði frumvarpið óbreytt að lögum.

Fyrst ber að nefna tillögu um að svokölluð rúmmálsregla í tekjuskattslögum, sem meðal annars ákvarðar hvort hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis teljist til skattskyldra tekna, verði ekki látin gilda þegar um er að ræða íbúðarhúsnæði til eigin nota. Verði frumvarpið að lögum mun því skattskylda hagnaðar af sölu íbúðarhúsnæðis til eigin nota aðeins ráðast af tíma eignarhalds, en hafi maður átt íbúðarhúsnæði í full tvö ár er söluhagnaður af því skattfrjáls. Í dag takmarkast þetta skattfrelsi af því að söluhagnaður af þeim hluta húsnæðisins, sem er umfram 600 rúmmetra hjá einstaklingi eða 1.200 rúmmetra hjá hjónum, er að fullu skattskyldur. Afnám rúmmálsreglunnar mun hafa óveruleg áhrif á ríkissjóð.

Í tekjuskattslögum er kveðið á um að frá tekjum lögaðila og af þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri megi draga einstakar gjafir og framlög til kirkjufélaga, viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknarstarfa, þó ekki yfir 0,5% af tekjum á því ári sem gjöf er afhent. Lagt er til að hlutfallinu verði breytt úr 0,5% í 0,75% ásamt því að gjafir til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem starfa að almannaheillum verði undanþegnar erfðafjárskatti í því skyni að draga úr beinum stuðningi ríkisins til þessara samtaka og stofnana eða kannski öllu heldur í því skyni að gera félögunum betur kleift að afla fjár frá samfélaginu, atvinnustarfseminni og með þeim hætti sem mörg dæmi eru um, að einstaklingar arfleiða slík félög að tilteknum eigum. Það mun draga úr þörfinni fyrir viðbótarstuðning ríkisins og auðvelda félögunum að afla sér fjár.

Niðurfelling erfðafjárskatts af gjöfum til góðgerðarmála og hækkun hlutfalls frádráttar lögaðila til sömu mála mun lækka tekjur ríkissjóðs eitthvað, en talið er að þau áhrif verði vart meira en 100 millj. kr. Á móti kemur ávinningurinn fyrir þá starfsemi úti í samfélaginu sem vafalítið verður seint metinn til nákvæmrar krónutölu. En frumvarpið gengur að sjálfsögðu út frá því að sá ávinningur sé umfram það sem fórnað er.

Sú starfsemi er á svo mörgum sviðum í samfélaginu grundvallarstoð að við leiðum ekki oft hugann að því hversu miklu hún getur skipt, bæði þegar fólk lendir í háska eins og oft gerist, Íslendingar og ferðamenn. Þá reynir á félög eins og Landsbjörgu. Slík samtök og önnur víðs vegar um landið gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki. Með þessari breytingu er þeim gert léttara að standa undir fjárhagslegum kostnaði af starfseminni.

Í þriðja lagi er í frumvarpinu lagt til að ef fyrir hendi er tvísköttunarsamningur eða annar alþjóðasamningur, svo sem upplýsingaskipta- eða innheimtuaðstoðarsamningur milli ríkja í tilviki samruna hlutafélaga yfir landamæri, verði félagi ekki gert skylt að leggja fram bankatryggingu hafi það fengið frest á greiðslu höfuðstóls skattskuldar samkvæmt tekjuskattslögum. Með lögum nr. 142/2013 var gerð breyting á ákvæði 51. gr. tekjuskattslaga sem fjallar um skattalega meðferð við samruna hlutafélaga og var breytingin gerð í kjölfar dóms EFTA-dómstólsins í desember 2013.

Í kjölfar dómsins var tekjuskattslögum breytt á þann veg að sömu reglur gilda nú hér á landi óháð því hvort samruni fer fram innan eða utan Íslands. Þó er gert ráð fyrir svokölluðum brottfararskatti við samruna yfir landamæri, en heimilt er að fresta greiðslu um fimm ár á gjaldföllnum skatti félagsins sem slitið var. Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur nú sent íslenska ríkinu rökstutt álit, dagsett 11. nóvember síðastliðinn, þar sem fram kemur að stofnunin telur að í þeim tilfellum að fyrir hendi séu tvísköttunarsamningar eða aðrir alþjóðasamningar milli ríkja í tilviki samruna hlutafélaga yfir landamæri eigi ekki að vera skylt að leggja fram bankatryggingu í þeim tilvikum að félag hafi fengið frest á greiðslu höfuðstóls skattskuldar.

Til að koma til móts við álit ESA er lagt til að í slíkum tilfellum verði félaginu ekki gert skylt að leggja fram bankatryggingu. Um er að ræða ívilnandi breytingu miðað við gildandi rétt og er hún ekki talin leiða til áhrifa á útgjöld og tekjur ríkissjóðs.

Hér er einnig lagt til að við tekjuskattslög verði bætt ákvæðum sem fjalla um skattalega meðferð við skiptingu hlutafélaga og einkahlutafélaga yfir landamæri, flutning á lögheimili eða eignum þeirra yfir landamæri og yfirfærslu einstaklingsrekstrar í einkahlutafélag yfir landamæri. Þetta er jafnframt gert í því skyni að koma til móts við áðurnefndar athugasemdir ESA.

Í frumvarpinu er lagt til að tekjuskattslögum verði breytt á þann veg að sömu reglur gildi hér á landi óháð því hvort skipting félaga fer fram innan eða utan Íslands. Þó er gert ráð fyrir að brottfararskattur sé greiddur við skiptingu yfir landamæri en heimilt er að fresta greiðslu á gjaldföllnum skatti þess félags sem slitið var um fimm ár. Með þeirri breytingu er tryggður skattlagningarréttur Íslands á óinnleystum hagnaði sem myndast hefur í rekstri hér á landi.

Næst eru það atriði sem varða skattlagningu við samruna verðbréfa- og fjárfestingarsjóða. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að heimilaður verði samruni verðbréfa- og fjárfestingarsjóða án þess að það leiði til skattlagningar fyrir eigendur þeirra sjóða sem slitið er. Fái eigandi hlutdeildarskírteinis einungis jafnvirði þess í hlutdeildarskírteinum í þeim sjóði sem við tekur hefur það því ekki í för með sér skattskyldar tekjur. Þar sem sjóðir þessir eru stofnaðir og reknir af rekstrarfélagi en eru ekki sjálfstæðir lögaðilar eiga þeir sem slíkir hvorki skattaleg réttindi né bera sjálfstæðar skattaréttarlegar skyldur. Breytingartillagan er ekki talin leiða til áhrifa á útgjöld og tekjur ríkissjóðs.

Þá er lagt til að hlunnindi erlendra listamanna sem felast í greiðslu annarra á ferða- og dvalarkostnaði þeirra verði ekki talin þeim til tekna. Þeim sem inna af hendi greiðslur til erlendra listamanna ber að halda eftir staðgreiðslu af tekjum og skila til ríkissjóðs. Réttilega afdregin og innborguð staðgreiðsla erlendra listamanna er fullnaðargreiðsla þeirra hér á landi án nokkurs frádráttar og fer ekki fram frekari ákvörðun eða álagning nema jafnframt sé um að ræða skattskyldu vegna fastrar starfsstöðvar hér á landi.

Með hliðsjón af því að ferðakostnaður er almennt frádráttarbær frá tekjum listamanna, sem bera hér á landi ótakmarkaða skattskyldu og með tilliti til jafnræðissjónarmiða, er því lagt til að ferða- og dvalarkostnaður erlendra listamanna verði ekki talinn þeim til tekna. Tekjur ríkissjóðs munu eitthvað lækka við þessa breytingu sem þó er talin verða óveruleg.

Í frumvarpinu er enn fremur lagt til að fellt verði brott ákvæði tekjuskattslaga er kveður á um að við mat framtalsskyldra eigna skuli eiganda leigulóðar talið afgjaldskvaðarverðmæti hennar til eignar, en leigjanda mismunurinn á fasteignamati og afgjaldskvaðarverðmæti. Ákvæðið er arfleifð frá gamalli tíð þegar eignarskattur var álagður og er lagt til að ákvæðið verði fellt brott, m.a. með einföldun á skattframtölum og framtalsskyldum einstaklinga í huga. Ekki er talið að breytingin hafi áhrif á útgjöld og tekjur ríkissjóðs.

Í frumvarpinu er lagt til að ríkisskattstjóra verði heimilað að ákveða að framtalsskil einstaklinga utan atvinnurekstrar skuli almennt vera með rafrænum hætti og að málsmeðferð verði rafræn eftir því sem við á frá og með 1. janúar 2016. Nú þegar er í lögum heimild þar sem ríkisskattstjóri getur ákveðið að lögaðilum og þeim einstaklingum sem stunda sjálfstæða starfsemi beri að skila skattframtali rafrænt. Við álagningu einstaklinga 2015 voru rafræn framtalsskil orðin 99,74% og pappírsskilin þannig á algjöru undanhaldi. Aukin rafræn framtalsskil ættu svo að óbreyttu að draga úr kostnaði við skattframkvæmd.

Innleiðing á samræmdum staðli um upplýsingagjöf á sviði skattamála er næsta atriði frumvarpsins sem ég vil gera grein fyrir. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um tekjuskatt sem heimila ríkisskattstjóra að kalla eftir frekari upplýsingum í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um upplýsingaskipti á sviði skattamála og heimild til handa ráðherra um að setja nánari reglur um framkvæmd upplýsingaöflunarinnar.

Í júlí 2014 var nýr samræmdur staðall um upplýsingaskipti samþykktur af hálfu OECD auk þess sem samþykkt var fyrirmynd að tvíhliða samkomulagi milli bærra stjórnvalda um hvernig skyldi staðið að þessum upplýsingaskiptum. Í framhaldinu undirritaði ég í október 2014 yfirlýsingu á fundi OECD í Berlín um upptöku nýs, samræmds, alþjóðlegs staðals um upplýsingaskipti í skattamálum. Yfir 90 ríki hafa skuldbundið sig til að innleiða framangreindan staðal sem varðar víðtæk skipti á upplýsingum frá öllum fjármálastofnunum staðsettum í viðkomandi samningsríki og snýr að tekjum af fjármálagerningum, stöðu reikninga og upplýsingum um hverjir séu raunverulegir eigendur þeirra. Ákvæði þessi eru ekki talin leiða til áhrifa á útgjöld og tekjur ríkissjóðs.

Tíunda breytingin sem ég mæli fyrir varðar gjalddaga skattkröfu. Með hliðsjón af áliti umboðsmanns Alþingis, frá 10. apríl síðastliðnum, er lagt til að ákvörðun um gjalddaga endurákvörðunar opinberra gjalda verði látin haldast í hendur við dagsetningu úrskurðar. Viðbótarfjárhæð samkvæmt endurákvörðun fellur þá í gjalddaga tíu dögum eftir dagsetningu úrskurðar ríkisskattstjóra um hækkunina í stað annars vegar tíu dögum eftir að gjaldanda var tilkynnt um hækkunina samkvæmt gildandi lögum, eða hins vegar þann dag sem vænta mætti að tilkynning hefði borist skattaðila samkvæmt niðurstöðu umboðsmanns Alþingis.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á tekjuskattslögum að því er varðar innheimtu opinberra gjalda. Breytingarnar felast í því að fyrirframgreiðslu þinggjalda og eftirstöðvum þeirra verði skipt þannig niður á gjalddaga að aldrei verði lægri fjárhæð til innheimtu á hverjum gjalddaga en 5 þús. kr. Lágmarksfjárhæð til innheimtu þinggjalda er nú 2 þús. kr. Sú fjárhæð hefur haldist óbreytt um langa hríð og er því lagt til að lágmarkið verði hækkað í 5 þús. kr. en sú fjárhæð helst þá í hendur við lágmarksfjárhæð barna- og vaxtabóta.

Virðulegi forseti. Gert er ráð fyrir því að útgáfu skattkorta verði hætt frá og með 1. janúar 2016 en þess í stað muni ríkisskattstjóri veita upplýsingar um persónuafslátt og nýtingu hans á staðgreiðsluári og hverju launatímabili. Brottfall skattkorta ætti að óbreyttu að draga úr kostnaði við skattframkvæmd, jafnframt því að stuðla að einföldun og meiri skilvirkni. Það er mikið fagnaðarefni að við séum að stíga þetta skref. Skattkortin hafa valdið nokkrum vandræðum í framkvæmd. Margir þekkja það að hafa þurft að sækja skattkort á einum vinnustað og færa til þess næsta, milli launagreiðenda, en með þessum breytingum eru skattkortin aflögð.

Í frumvarpinu er lagt til að fjármálafyrirtæki sem hafa leyfi til að stunda verðbréfaviðskipti verði undanþegin frá staðgreiðslu af fjármagnstekjum samkvæmt lögum um staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum, líkt og bankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki. Sú undanþága hefur ekki náð til verðbréfafyrirtækja sem leiðir til þess að halda skal eftir fjármagnstekjuskatti þegar verðbréfafyrirtæki eru aðilar að viðskiptum, þ.e. móttakendur fjármagnstekna, jafnvel þótt þau komi aðeins fram fyrir hönd viðskiptavina sinna. Gildandi reglur hafa þannig skapað óþarfaflækjur í framkvæmd og í einhverjum tilvikum óeðlilega fjárbindingu. Eðlilegt þykir hins vegar að undanþágan taki til allra fjármálafyrirtækja sem hafa leyfi til að stunda verðbréfaviðskipti og þess vegna er þessi tillaga lögð fram.

Þá eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á ákvæðum laga um tryggingagjald. Innlendum launagreiðanda ber skylda til að greiða tryggingagjald af launum launþega sinna. Á hinn bóginn er ekki heimilt að skylda erlendan launagreiðanda til að standa skil á greiðslu tryggingagjalds hér á landi nema í undantekningartilvikum. Laun sem þannig eru greidd af erlendum launagreiðanda launþega hér á landi mynda því ekki stofn til tryggingagjalds.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að erlendum launagreiðanda verði heimilt að greiða tryggingagjald fyrir launþega sinn hér á landi til að koma í veg fyrir að hann verði án þeirra réttinda hér á landi sem greiðsla samkvæmt ákvæðum laga um tryggingagjald er forsenda fyrir. Gera má ráð fyrir að með breytingum þessum kunni tekjur ríkissjóðs að aukast lítillega. Engar upplýsingar liggja hins vegar fyrir um það hversu margir aðilar muni nýta sér heimildina.

Þá er lagt til að álagningardegi opinberra gjalda á einstaklinga verði flýtt þannig að álagningin verði birt þeim um mánaðamótin júní/júlí ár hvert í stað loka júlímánaðar. Þá er einnig lagt til að kærufrestur verði lengdur úr 30 dögum í 60 daga frá dagsetningu auglýsingar um lok álagningar. Talið er heppilegra að kærufrestur sé lengri en nú er kveðið á um þar sem óheppilegt er að lok kærufrests séu á miðju sumarorlofstímabili. Lok kærufrests yrðu því í lok ágúst líkt og verið hefur. Rétt er að taka fram að engin ákvörðun hefur verið tekin um að breyta innheimtuferli opinberra gjalda á næsta ári í tengslum við þá breytingu, svo sem innheimtu eftirstöðva, endurgreiðslu oftekinna skatta eða greiðslu barna- og vaxtabóta.

Virðulegur forseti. Að síðustu eru hér svo lagðar til þrjár breytingar á tollalögum.

Í fyrsta lagi er lagt til að hugtakið tollhöfn verði endurskilgreint í tollalögum á þann hátt að tollhöfn teljist vera innan marka sem ráðherra afmarkar með hnitasetningu í reglugerð. Hugtakið tollhöfn er í dag skilgreint á þann hátt að til hennar teljist staður, höfn eða flugvöllur, þar sem heimilt er að ferma og afferma för og geyma og tollafgreiða vörur úr þeim án sérstakrar heimildar tollyfirvalda. Ráðherra skal síðan ákveða með reglugerð hvar tollhafnir skuli vera. Verði breytingin samþykkt mun afmörkun ráðherra á tollhöfnum ekki lengur verða tengd við höfn eða flugvöll heldur fyrst og fremst ráðast af þörfum atvinnulífsins og möguleikum tollstjóra til að viðhafa fullnægjandi tolleftirlit.

Í annan stað er hér lagt til að í ljósi mikilvægis farþegaupplýsinga við eftirlit og þróun við notkun á upplýsingum til að koma í veg fyrir alvarlega glæpi sé hnykkt á rétti tollstjóra til að afla farþegaupplýsinga. Til að tryggja virkni upplýsingaskyldunnar er lagt til að tollstjóra verði heimilt að beita stjórnvaldssektum ef upplýsingagjöf reynist ófullnægjandi. Þau ákvæði frumvarpsins sem hér er lagt til að bætist við tollalög taka til allra farþegaupplýsinga, hvort sem þeim er safnað vegna ferða flugvéla eða skipa. Það er við því að búast að lönd muni gera vaxandi kröfur um afhendingu upplýsinga af þessum toga í náinni framtíð, m.a. vegna þeirra atburða sem eiga sér stað um þessar mundir, síðustu daga og vikur, þar sem eftirlit með umferð um flugvelli og eftirlit með skipaferðum er að vaxa, landamæraeftirlit er að aukast og íslensk stjórnvöld þurfa að vera í stakk búin til að safna og eiga samstarf um afhendingu þeirra upplýsinga sem hér er um að ræða.

Að lokum eru lagðar til breytingar á tollalögum með það að markmiði að afmarka nánar þau skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til að rekstur tollvörugeymslu verði heimilaður og þá sérstaklega í þeim tilvikum þegar tilgangur rekstrar er ekki að veita öðrum ótengdum aðilum þá þjónustu sem felst í rekstri slíkra geymslna.

Verði tillagan samþykkt mun tollstjóra aðeins verða heimilt að veita þeim rekstraraðilum tollvörugeymslna heimild til að geyma tollafgreiddar og ótollafgreiddar vörur í sama rými í tollvörugeymslu sem starfa í þeim tilgangi að veita öðrum ótengdum aðilum þá þjónustu sem felst í rekstri slíkra geymslna. Samþykkt tillögunnar mun þrengja nokkuð að möguleikum sölufyrirtækja til að reka tollvörugeymslu í eigin vöruhúsi. Á hinn bóginn mun breytingin stuðla að jafnari samkeppnisstöðu slíkra fyrirtækja auk þess sem hún gerir stjórnvöldum betur fært að tryggja skilvirkt og hagkvæmt tolleftirlit með rekstri tollvörugeymslna.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.