145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

skattar og gjöld.

373. mál
[15:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er nú svo sem ekki ástæða til að hafa mörg orð um þá tiltekt eða það uppsóp hjá hæstv. fjármálaráðherra sem þetta er, þar sem borið er niður víða í skattalöggjöfinni og í fæstum tilvikum um miklar efnisbreytingar að ræða eða breytingar sem hafa teljandi áhrif á tekjur ríkissjóðs o.s.frv., eins og fram kom í máli ráðherrans. Ég óska fyrrverandi félögum mínum í efnahags- og viðskiptanefnd innilega til hamingju með að fá þetta skemmtilega frumvarp til að glíma við, þennan mikla bandorm.

En það eru samt nokkur atriði sem eru áhugaverð og ég vil aðeins tæpa á. Það er í fyrsta lagi afnám rúmmálsreglunnar svokölluðu, sem er sjálfsagt til nokkurra þæginda. Hæstv. ráðherra sagði að þetta væri nú ekki teljandi tekjutap, sem sjálfsagt er rétt, þegar haft er í huga hversu há mörkin hafa verið. Ef ég ekki á einhverjum villigötum erum við að tala þarna um annars vegar 600 rúmmetra og hins vegar 1.200 rúmmetra hjá einstaklingum og hjónum, sem eru þá 200 fermetrar annars vegar og 400 fermetrar hins vegar, jafnvel þótt 3 metrar væru til lofts í því húsnæði, eða hvað. Við erum því að tala hér um ákvæði sem greinilega hefur verið í lögunum og hefur gert söluhagnað af mjög stórum húsum skattskyldan ofan við þessi mörk, en bara af þeim hluta húsnæðisins sem er umfram þetta. Í raun og veru hefur þetta því verið einhvers konar villuákvæði, ef svo má að orði komast, að menn gætu þurft að greiða skatt af söluhagnaði af extra stórum og verðmætum húsum. Þeir sem njóta þá lækkunarinnar eru eigendur slíkra húsa. Þeir hafa kannski líka fengið eitthvað af skuldaniðurfærslunni og losnað við auðlegðarskattinn í leiðinni. Þetta er því viðbótarkonfektmoli sem mun fyrst og fremst falla slíkum aðilum í hlut, hjónum sem eiga yfir 400 fermetra einbýlishús eða eitthvað í þeim dúr. Sjálfsagt er það ekkert mjög stórt mál og ekki miklar tekjur sem um er að ræða, en af einhverjum ástæðum hefur þetta nú verið þarna inni. Mér finnst allt í lagi að menn fari yfir það og rifji upp hver hugsunin var með því á sínum tíma. Var hún kannski einmitt sú að það væri þó ekki ástæða til að menn greiddu enga skatta af miklum hagnaði sem stofnaðist af svona aðstæðum?

Í öðru lagi vil ég nefna 15. atriðið sem hér er upptalið, við höldum okkur við númeringuna, þ.e. að erlendum launagreiðendum verði heimilt að greiða tryggingagjald fyrir launþega sína hér á landi til að þeir öðlist þau réttindi sem bundin eru við greiðslu þessa gjalds. Það tengist auðvitað Evrópuréttinum með vissum hætti. Ef ég skil rétt umfjöllun um málið er okkur ekki heimilt að skylda menn til að gera greiða þetta gjald, sem hefði að mörgu leyti verið æskilegt því að auðvitað er eðlilegt að menn greiði þetta gjald og njóti réttindanna sem því tengjast, eins og til dæmis réttar til fæðingarorlofs.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Var þetta mál eitthvað unnið með aðilum vinnumarkaðarins? Hefur verið farið yfir það í leiðinni hvort ástæða væri til að gera frekari breytingar eða jafnvel aðrar breytingar sem næðu sömu markmiðum, til dæmis að breyta tímamörkunum sem eru á því hversu lengi menn geta verið hér á vegum erlendra aðila á vinnumarkaði án þess að skrá sig og fara að greiða hér skatta af launum sínum? Það er einhver þriggja mánaða regla og annað sem ég þekki ekki nákvæmlega en veit að er til skoðunar núna, til dæmis á svæðum eins og í Suður-Þingeyjarsýslu þar sem reynir á þetta. Sumir eru þeirrar skoðunar að mörkin séu of rúm og í skjóli þess geti stór hluti af vinnuaflinu árum saman verið utan íslenska vinnumarkaðarins og ekki greitt hér skatta og skyldur og ekki notið hér réttinda, sem er auðvitað aldrei hið eðlilega ástand. Að uppistöðu til á grunnregla skattaréttar að vera sú að tekjur komi til skattlagningar þar sem þær myndast þótt auðvitað gildi um það ýmsar reglur þegar um samskipti milli landa er að ræða.

Ég hef haft áhuga á því að vita hvort þetta hafi verið unnið í samráði við aðila vinnumarkaðarins, ekki síst verkalýðshreyfinguna, og hvort menn telji þá ástæðu til að ætla að verði þetta opnað svona muni menn nýta sér það. Hvaða greining liggur á bak við að þessi breyting er lögð til?

Að lokum held ég að það sé ágætt að breyta álagningardeginum, sem leiðir til þess að kærufrestur verður lengdur. Það er þá spurning hvort öll framkvæmdin færist í raun fram um mánuð eða hvort menn halda sig að öðru leyti við þær dagsetningar sem verið hafa varðandi uppgjör á vaxta- og barnabótum og öðru slíku, a.m.k. á næsta ári, ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt. Kannski teiknar þetta til þess að framkvæmdin færist framar á árinu og hin rafræna tækni að auðvelda okkur það, þá er það hið besta mál.

Það er ástæða til að gleðjast yfir því og hrósa ríkisskattstjóra og starfsfólki hans fyrir glæsilegan árangur í því að rafvæða skattskilin. Það er þó ánægjulegt að að minnsta kosti á því sviði erum við þó nokkuð framarlega, og höfum verið framarlega, Íslendingar, og staðið okkur vel. Það er glæsileg frammistaða að framtöl skuli vera orðin nánast algerlega rafræn og pappírinn horfinn, en því miður er því ekki að heilsa sums staðar annars staðar. Ég held að hæstv. fjármálaráðherra þurfi að hressa aðeins upp á tollinn, svo dæmi sé tekið. Ég er ansi hræddur um að ástandið sé ekki eins gott þar. Þar mætti ná fram miklu hagræði með meiri notkun á rafrænum lausnum. En fjárskortur hefur staðið mönnum fyrir þrifum að byggja upp þá þjónustu, sem er auðvitað tilfinnanlegt. Skatturinn er mjög glæsilegt dæmi um það þar sem þessi tækni hefur verið nýtt og hefur skilað góðum árangri.