145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

framganga formanns fjárlaganefndar gagnvart forstjóra Landspítalans.

[15:12]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Það hefur margítrekað komið fram í skoðanakönnunum hjá þjóðinni að vilji er til sátta og átaks í heilbrigðismálum og sömuleiðis hafa hér á Alþingi komið fram þverpólitískar yfirlýsingar í það minnsta um að setja eigi heilbrigðiskerfið í forgang. Þess vegna skiptir miklu máli að það sé hreint og gott samtal Alþingis við þær stofnanir sem eru í heilbrigðiskerfinu og við þjóðarsjúkrahúsið okkar. Það samtal þarf að vera uppbyggilegt og á réttum nótum.

Ég vil taka undir það með öðrum þingmönnum að það er mjög hættulegt að verðfella hugtak eins og ofbeldi eða andlegt ofbeldi vegna þess að nóg er nú af því í samfélaginu. Ef við alþingismenn, við sem höfum verið kjörin til forustu, þolum ekki okkar atlæti þá held ég að það sé ekki mikil eftirspurn eftir þeirri skoðun.