145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

loftslagsmál.

[15:28]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina og tek sannarlega undir það að loftslagsmálin eru eitt stærsta viðfangsefni heimsins í dag, spennandi viðfangsefni og ögrandi sem kemur inn á alla þætti mannlegs lífs. Það ættum við að hafa í huga hér að allar okkar athafnir og jafnvel hugsun ætti meira og minna að snúast um hvernig við getum tekið á loftslagsmálum. Öll sóun, öll umframneysla hefur áhrif á loftslagið þannig að mannleg hegðun hefur mjög mikið að segja.

Mér finnst ríkisstjórn Íslands hafa sett fram mjög metnaðarfullar áætlanir. Það er ekki rétt sem hér hefur komið fram fyrr í dag að við sinnum ekkert almenningssamgöngum eða öðru. Þetta er sóknaráætlun til viðbótar við þá áætlun sem er í gangi. Það er aðgerðaáætlun í gangi varðandi einmitt almenningssamgöngur og fleira.

Við erum að bæta í og víða í fjárlögum eigið þið að sjá þess dæmi hvar verið er að bæta í varðandi loftslagsmálin. Eins og ég gat um snerta þau svo marga þætti. Við erum mjög stolt af því hjá umhverfisráðuneytinu hversu vel er bætt í okkar áætlanir núna milli umræðna. Það snertir ekki síst hugmyndir okkar um loftslagsmál.

Við erum í sameiningu með Evrópuþjóðunum og Noregi að draga 40% úr losun og við munum vinna af öllum krafti að því. Þetta er í tvennu lagi, við erum enn þá með í Kyoto-bókuninni til ársins 2020 og til viðbótar er sú sóknaráætlun sem við höfum lagt fram um hvernig við getum hert enn betur á til 2030. Við viljum stefna að því og ég tek undir það með forsætisráðherra að við verðum hér með endurnýjanlega orkugjafa líka varðandi samgöngurnar. Þetta hefur áður komið fram. Varðandi (Forseti hringir.) það að hverfa frá … jæja, ég svara um olíuvinnsluna í minni seinni ræðu.