145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

eftirlit með lögreglu.

[15:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum dögum spurði ég hæstv. innanríkisráðherra um skil á tillögum til úrbóta þegar kemur að eftirliti með lögreglu. Hæstv. ráðherra tjáði mér þá að hún vænti skýrslu daginn eftir, sem voru auðvitað gleðifréttir. Ég er mjög feginn því að skýrslan er komin. Hins vegar verð ég að segja að tillagan veldur mér örlitlum vonbrigðum.

Það sem okkur pírötum og fleirum hefur þótt mikilvægast í þessu er að til staðar sé sjálfstæð stofnun sem hefur eftirlit með störfum og starfsháttum lögreglu, ekki bara þegar kemur beinlínis að refsiverðri háttsemi heldur einnig þegar kemur að kvörtunum sem varða hluti eins og framkomu og beitingu valds og því um líkt.

Í Noregi, Danmörku og Svíþjóð, eins og kemur fram í skýrslunni, eru sjálfstæðar stofnanir þótt í Svíþjóð sé sú stofnun að vísu innan lögreglunnar. Í Finnlandi sýnist mér fyrirkomulagið vera eins og hér í meginatriðum ef ekki öllum.

Tillagan sem fylgir skýrslunni kveður á um að skipuð verði nefnd þriggja manna; einn tilnefndur af Lögmannafélagi Íslands, einn tilnefndur af Mannréttindaskrifstofu Íslands og sá síðasti skipaður án tilnefningar af hæstv. utanríkisráðherra sjálfum, og skal hann vera formaður. Hlutverk þessarar nefndar, eftir því sem ég fæ best séð, er fyrst og fremst að áframsenda beiðnir, kærur, ábendingar og því um líkt til þeirra aðila sem nú þegar eiga að öllu jöfnu að skoða þessi mál, þ.e. héraðssaksóknari eða ríkissaksóknari þegar kemur að refsiverðri háttsemi en ekki er gert ráð fyrir því að nefndin rannsaki sjálf eða taki þátt í rannsókn á atriðum sem kvartað er undan, svo sem hegðun.

Í stuttu máli þykir mér ekki gengið nógu langt. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji tillögurnar ganga nógu langt. Ég vil einnig spyrja hvort hæstv. ráðherra hafi þegar ákveðið næstu skref í kjölfar birtingar þessarar skýrslu.