145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

eftirlit með lögreglu.

[15:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég sé ýmislegt þarna til bóta, ég get alveg viðurkennt það, enda er víða pottur brotinn eins og kemur reyndar fram í skýrslunni. Það er margt sem hefur verið óskilgreint hingað til og hefur þróast með tímanum án þess að nógu mikil handleiðsla sé í kringum það hvernig hlutirnir eigi að vera. Það eitt og sér að koma eigi þessum málum í eitthvert skipulegt form er jákvætt.

Vonbrigði mín felast einkum í því að ég hefði viljað sjá sérstaka stofnun sem væri undirstofnun Alþingis frekar en ráðuneytis. Þó að það sé kannski ekki algert lykilatriði hvernig því fyrirkomulagi yrði háttað þá þykir mér nefndin ekki hafa nógu ríkt hlutverk í rannsókn mála. Ég sé fyrir mér að kvartanir sem berast til lögreglunnar fari bara til lögreglunnar og séu bara þar með sömu vandamálum og núna eru uppi, ýmist að þær séu hunsaðar eða hvernig sem það er.

Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra sé reiðubúinn til að skoða hugmyndir um að ganga lengra í þessum efnum, sér í lagi þegar kemur að sjálfstæði stofnunarinnar.